Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Óvíst hvort og þá hvenær eldgos verður“

Mynd: RUV / RUV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúrvárvöktunar á Veðurstofunni, segir óróan enn vera í gangi og virðist tengjast því að það sé mjög hröð þróun. „Það er líklegast að óróinn sé til marks um mjög hraða gliðnun sem á sér stað í tengslum við þennan kvikugang,“ segir Kristín við Bjarna Rúnarsson í sjónvarpsfréttum í kvöld.

Hún leiðréttir fyrri yfirlýsingar frá því í dag að það hafi mælst gosórói, það sé ekki rétt heldur sé þetta órói. „Hann virðist tengjast því að þarna er að eiga sér stað hröð gliðnun og kvika sér að færast nær yfirborði.“ 

Kristín segir þetta þýða að líkur aukast á eldgosi. „Það er auðvitað ekki þar með sagt að það sé öruggt, og það er heldur ekki vitað ef það gerist, hvenær það gerist. Þetta gæti tekið einhverja daga, jafnvel vikur þess vegna.“

Kristín segir að um hádegisbil á morgun liggi fyrir nýjar upplýsingar sem verða byggðar á myndum úr gervitungli sem eiga að berast í kvöld.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV