Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Opnað fyrir viðspyrnustyrki

03.03.2021 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Peningar
Skatturinn hefur opnað fyrir umsóknir um viðspyrnustyrki vegna áhrifa kórónuveirufalaldursins. Styrkjunum er ætlað að styðja fyrirtæki og einyrkja sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 60 prósent tekjufalli á tímabilinu 1. nóvember 2020 til 31. maí næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.  Styrkjunum er ætlað að gera rekstraraðilum kleift að viðhalda lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir og varðveita viðskiptasambönd og viðbúnað.

Hægt er að fá allt að 2,5 milljónir á mánuði í styrk og sótt er um þá á vef Skattsins. Þá kemur einnig fram að frá því í janúar hafa um 1.550 rekstraraðilar fengið um 8,3 milljarða króna greidda í tekjufallsstyrki og um 2,1 milljarður króna verið greiddur í lokunarstyrki.

Tæpir sex milljarðar króna hafa verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti  vegna margs konar framkvæmda en endurgreiðslurnar nýtast einkum einstaklingum og félögum á borð við sveitarfélög, almannaheillafélög og íþróttafélög.

Flest fyrirtæki sem nýtt hafa úrræði stjórnvalda eru með færri en 10 starfsmenn á launaskrá, eða 82 prósent þeirra sem nýttu úrræðin.  Yfirlit yfir stöðu efnahagsaðgerða má sjá hér að neðan.