Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ólæknandi blæti fyrir enska boltanum gat af sér bók

Mynd: Kiljan / RÚV

Ólæknandi blæti fyrir enska boltanum gat af sér bók

03.03.2021 - 20:20

Höfundar

Þegar Orri Páll Ormarsson var settur á gæruskinnið fyrir framan svarthvítt sjónvarpið upphófst ástarsamband sem ekki sér fyrir endann á. Í bókinni Í faðmi ljónsins fjallar hann um nautnir og þjáningar sem enski boltinn hefur veitt Íslendingum.

Bók Orra Páls, sem ber undirtitilinn Ástarsaga, er eins konar viðtökusaga um það hvernig þjóðin hefur umgengist enska boltann síðan snemma á síðustu öld.

„Ég er búinn að vera með ólæknandi blæti fyrir ensku knattspyrnunni síðan ég man eftir mér,“ segir Orri Páll í samtali við Egil Helgason í Kiljunni. „Eins og ég segi frá í bókinni setti móðir mín mig niður á gæruskinnið fyrir framan svarthvítt sjónvarpið þegar ég var pínulítill og ég hef fylgst með þessu mjög grannt síðan. Í þannig skilningi er þetta ástarsaga.“ Hann þykist viss um að þau séu mörg sem tengja við þær tilfinningar á Íslandi. „Þetta skiptir fólk svo miklu máli. Að úrslit í einhverjum kappleikjum úti í heimi ráði því hvort fólki líði vel eða illa hér uppi á Íslandi er stórmerkileg pæling. Þannig að ég fór að skoða það og hvernig þjónustan hefur verið við þetta fólk í gegnum tíðina.“

Þegar hann hóf rannsóknarvinnuna bjóst hann ekki við að það yrði um auðugum garð að gresja í íslenskum dagblöðum fyrir seinna stríð en annað kom á daginn. „Í Morgunblaðinu [árið 1934] finn ég frétt um það að blaðið áttar sig greinilega á þessum áhuga og segist ætla að vera með úrslit og fréttir reglulega þá um veturinn. Væntanlega hefur einhver bankað upp á og sagt: Við viljum fá þessar fréttir. Þetta byrjar fyrr en ég bjóst við en það verður mikil kúvending þegar útsendingar hefjast í sjónvarpinu.“

Sauð á þjóðinni eftir endasleppa beina útsendingu

Beinar sjónvarpsútsendingar hófust 1982 en þær gengu brösuglega í fyrstu. „Fall er fararheill segja menn. Það er frægt dæmi um þegar það var leikur í deildarbikarnum milli Tottenham og Liverpool. Það var búið að panta hnöttinn og hann var bara pantaður í 90 mínútur. Þegar kemur að framlengingu þá er útsendingin rofin og það fór allt á hliðina.“

Mynd með færslu

Orri Páll segir að það sé óborganlegt að lesa lesendabréf blaðanna dagana eftir útsendinguna. „Það sauð á þjóðinni.“ Nokkrum vikum síðar tók ekki mikið betra við þegar sýna átti frá bikarúrslitaleiknum. „Þá var nú passað upp á að hafa gervihnöttinn nógu lengi til að sýna framlenginguna. Hins vegar næst ekki að knýja fram úrslit, það er jafntefli og annar leikur. Þá skellir almættið í einhverri hótfyndni leiknum á fimmtudag, sem þýðir hvað? Ekkert sjónvarp á Íslandi. Þannig að við sáum ekki seinni leikinn þar sem úrslit réðust.“ Hann segir að honum yngra fólk, sem er vant því að horfa á leikina hvar og hvenær sem er, stari opinmynnt á hann þegar hann lýsi þrautagöngu áhugafólks um knattspyrnu fyrr á dögum.

Þjáningin þyngri en nautnin

Orri Páll segir að íþróttin fari þráðbeint inn í sálarlíf fólks. „Það eru fleiri en ég sem taka til máls í bókinni. Ég tala við stuðningsmenn liða sem eru sumir hverjir álíka geggjaðir og jafnvel geggjaðri en ég sjálfur. Þannig að ég er að reyna að ná utan um þetta, hvernig við höfum upplifað þetta og notið í gegnum tíðina.“

En þetta er ekki bara nautn heldur líka þjáning. „Þetta er eiginlega miklu meiri þjáning. Ég hitti einu sinni Nick Hornby, rithöfund. Hann er mikill Arsenal-maður. Hann sagði að munurinn á því að halda upp á hljómsveit og knattspyrnulið er það að knattspyrnulið fær þig reglulega til að vilja hoppa út um gluggann. Þó hljómsveit gefi út lélega plötu þá geturðu alltaf hlustað á gömlu plöturnar en það er ekkert varið í það að horfa á gamla leiki. Það er bara núið sem skiptir mál. Hvernig gengur í dag.“