Bók Orra Páls, sem ber undirtitilinn Ástarsaga, er eins konar viðtökusaga um það hvernig þjóðin hefur umgengist enska boltann síðan snemma á síðustu öld.
„Ég er búinn að vera með ólæknandi blæti fyrir ensku knattspyrnunni síðan ég man eftir mér,“ segir Orri Páll í samtali við Egil Helgason í Kiljunni. „Eins og ég segi frá í bókinni setti móðir mín mig niður á gæruskinnið fyrir framan svarthvítt sjónvarpið þegar ég var pínulítill og ég hef fylgst með þessu mjög grannt síðan. Í þannig skilningi er þetta ástarsaga.“ Hann þykist viss um að þau séu mörg sem tengja við þær tilfinningar á Íslandi. „Þetta skiptir fólk svo miklu máli. Að úrslit í einhverjum kappleikjum úti í heimi ráði því hvort fólki líði vel eða illa hér uppi á Íslandi er stórmerkileg pæling. Þannig að ég fór að skoða það og hvernig þjónustan hefur verið við þetta fólk í gegnum tíðina.“
Þegar hann hóf rannsóknarvinnuna bjóst hann ekki við að það yrði um auðugum garð að gresja í íslenskum dagblöðum fyrir seinna stríð en annað kom á daginn. „Í Morgunblaðinu [árið 1934] finn ég frétt um það að blaðið áttar sig greinilega á þessum áhuga og segist ætla að vera með úrslit og fréttir reglulega þá um veturinn. Væntanlega hefur einhver bankað upp á og sagt: Við viljum fá þessar fréttir. Þetta byrjar fyrr en ég bjóst við en það verður mikil kúvending þegar útsendingar hefjast í sjónvarpinu.“
Sauð á þjóðinni eftir endasleppa beina útsendingu
Beinar sjónvarpsútsendingar hófust 1982 en þær gengu brösuglega í fyrstu. „Fall er fararheill segja menn. Það er frægt dæmi um þegar það var leikur í deildarbikarnum milli Tottenham og Liverpool. Það var búið að panta hnöttinn og hann var bara pantaður í 90 mínútur. Þegar kemur að framlengingu þá er útsendingin rofin og það fór allt á hliðina.“