„Nógu hættulegur“ til að fá hjálp sem aðrir bíða eftir

Mynd: Ágúst Kristján Steinarrsson / Facebook

„Nógu hættulegur“ til að fá hjálp sem aðrir bíða eftir

03.03.2021 - 15:02

Höfundar

„Þeir sem eru kannski að stíga fram úr rúminu og virkilega þurfa aðstoð, þeir eru ekki hættulegir sjálfum sér og öðrum og þeir fara á bið,“ segir Ágúst Kristján Steinarsson stjórnunarráðgjafi og tónlistarmaður. Hann er einn þeirra sem hefur gagnrýnt úrræðaleysi sem margir þeirra sem glíma við geðsjúkdóma mæti í heilbrigðiskerfinu.

Mikil umræða spratt upp á samskiptamiðlinum Twitter í vikunni þar sem fólk var að deila reynslu sinni af því að leita til geðlæknis en mæta því sem þau upplifuðu sem lokaðar dyr og úrræðaleysi. Fólk sagði sögur af því að lenda á löngum biðlistum þó nauðsyn fyrir aðstoð væri brýn og margir vilja meina að vandamálið sé töluvert stærra en opinber umræða endurspegli. Ágúst Kristján Steinarsson, stjórnunarráðgjafi og tónlistarmaður, stríðir við geðhvörf en greindist fyrst árið 1999 þegar hann var nítján ára.

Ágúst hefur deilt reynslu sinni opinberlega, gefið út bókina Riddarar hringavitleysunnar þar sem hann segir frá erfiðri glímu við bæði andleg og líkamleg veikindi. Ágúst kíkti í Síðdegisútvarpið á Rás 2 þar sem hann lýsti reynslu sinni af geðheilbrigðiskerfinu. „Ég hef veikst af geðhvörfum en þó bara maníu. Hef farið upp og farið í geðrof fimm sinnum á lífsleiðinni,“ segir Ágúst. Í sjálfu sér felist í því viss forréttindi hve hratt hann hefur farið upp því hann verði nógu hættulegur sjálfum sér og öðrum til að fá þjónustu strax.

Sagði að allt væri í góðu, var kominn til Danmerkur nokkrum dögum síðar

Það eru nokkur ár síðan Ágúst fann síðast fyrir geðhvörfum en ein manían dró hann til Danmerkur svo hann hefur samanburð á geðheilbrigðiskerfinu þar og á Íslandi. Þá hafði hann nýverið fengið nýjan geðlækni og þegar hann fann sjálfur að manía gæti verið í uppsiglingu reyndi hann að hafa samband við lækninn en náði því ekki strax. Það liður tveir dagar þar til læknirinn hringdi til baka og þá var Ágúst kominn í svo mikla maníu að hann afþakkaði þjónustuna. „Ég er kominn á flug og segi honum: Það er ekkert að. Bara glaður og hress og gott veður úti og vor í lofti. Hann segir: Ókei. Nokkrum dögum seinna er ég kominn til Danmerkur.“ Ágúst segir lækninn hafa síðar viðurkennt að hefði þeir þekkst betur þá, eins og þeir gera í dag, hefði hann líklega gripið fyrr inn í því hann þekkir frávikin.

Hann segir rosalegan mun á því að greinast 19 ára og 33 ára. „Munurinn er á því þroskastigi sem maður er á, þannig að upplifunin verður allt önnur,“ segir hann. Og viðmótið gagnvart geðheiðbrigðiskerfinu þróaðist með aukinni reynslu. „Mín persónulega reynsla af því er ekkert rosalega jákvæð og framan af var ég svona vitlaust bjarsýnn að fara í gegnum það, en seinna meir var ég farinn að bíta frá mér. Það var ekkert að hjálpa heldur.“

Þeir sem komast ekki fram úr rúminu og þurfa aðstoð fara á biðlista

Hann ítrekar að það hafi verið fyrr gripið inn í í hans tilfellum en hjá mörgum öðrum sem einnig þurfi nauðsynlega á hjálp að halda. „Ég er talinn vera hættulegur sjálfum mér og öðrum þannig að ég fæ hjálp sem ég jafnvel vil ekki fá. Ég er bara kallaður inn og nauðungavistaður og margt fleira. Það er tekið af mér frelsið og jafnvel beitt ofbeldi til að ná því fram.“ Í slíku ástandi hafi hann því greiðan aðgang að læknum sem aðrir þurfi því miður að bíða eftir. „Þeir sem eru kannski að stíga fram úr rúminu og virkilega þurfa aðstoð, þeir eru ekki hættulegir sjálfum sér og öðrum og þeir fara á bið.“

Keyrði í sex tíma en kom að lokuðum dyrum

Hann kveðst þekkja dæmi um einstakling sem er búsettur utan höfuðborgarsvæðisins sem glímdi við mikið þunglyndi og vanlíðan. Það tók hann tíma að taka af skarið og sækja sér hjálp. Loks þegar hann treysti sér til að leita sér læknis þurfti hann að keyra í sex tíma til Reykjavíkur en þegar hann mætti til Reykjavíkur hafi hann komið að lokuðum dyrum. „Þá er bara: Nei, því miður, við getum ekki tekið á móti þér. Ég veit ekki betur en að þessi aðili hafi aldrei leitað sér aðstoðar aftur,“ segir Ágúst. „Ef þú færð höfnun einu sinni í þessu ástandi er erfitt að stíga fram aftur.“

Slökkvistöðin slekkur elda í stað þess að fyrirbyggja

Hann segir vandann meðal annars felast í því að geðheilbrigðiskerfið fái aðeins brot af fjármunum heilbrigðiskerfisins, sem sé ekki í takt við hlutfall þjónustunnar. „Það er bara augljóst vandamál þarna, fjármunirnir eru ekki miklir. Hitt er svo persónuleg skoðun að fyrir mér er geðheilbrigðistkerfið gjarnan slökkvistöðin. Þau slökkva elda í stað þess að fyrirbyggja,“ segir Ágúst. „Þannig má horfa á samfélagið í heild, hvernig erum við að fyrirbyggja þetta ástand og stuðla að því að fólk sé ekki að lenda í þessari stöðu? Að koma að lokuðum dyrum hjá geðlæknum?“ Hann hrósar landssamtökunum Geðhjálp fyrir að leggja sig einmitt fram við að stuðla að nauðsynlegum forvörnum.

Framþróun í samfélaginu en ekki á geðdeild

Það er langt síðan Ágúst veiktist síðast en hann minnist þess samt að hafa verið vonsvikinn yfir því hve lítið mál hefðu þokast áfram í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi á tíu árum, frá því hann leitaði sér fyrst hjálpar 19 ára og svo 30 ára. „Ég var hissa á hve lítil framþróun var, ég fann fyrir því í samfélaginu en ekki á geðdeild.“

Hann tekur þó fram að flestir séu allir af vilja gerðir og reyni að gera sitt besta, það vanti ekki. „En þau eru ekki sett í auðvelda stöðu og ef þau fást við einstaklinga eins og mig á geðdeild þá er það bara rosalega erfitt. Mjög erfitt starf.“

Frelsun fólgin í að opna sig

Sjálfur hefur hann beitt sér mikið fyrir því að opna á umræðuna um geðheilbrigðismál og fagnar tækifærum til að geta sagt frá sinni reynslu opinberlega. „Ég hef skrifað mína bók, algjörlega berskjaldað mig, og geri það líka í mínum fyrirlestrum,“ segir hann. Og viðbrögðin sem hann hefur fengið hafa verið mjög góð. „Fólki finnst jákvætt að heyra þessa sögu og skilja hvað maður er að fara í gegnum.“

Hjálpin er líka hjá sálfræðingum, vinum og fjölskyldu

Hann minnir í lokin á mikilvægi þess að leita sér hjálpar og segir hjálpina ekki eingöngu vera hjá geðlæknum. „Hún er líka hjá sálfræðingum, þó þeir séu líka af skornum skammti, en líka hjá fjölskyldu og vinum,“ segir hann. Og hann hvetur fólk til að opna sig. „Tala um þetta, vera opinská um sína líðan. Það eru allir að kljást við sinn draug.“

Rætt var við Ágúst Kristján Steinarsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Leiklist

Grét á leiksýningu um sjálfan sig

Bókmenntir

Þessi saga bjargaði bókstaflega lífi mínu

Innlent

„Ofbeldið gerði mig að stríðsmanni“