Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

HSA tekur við rekstri hjúkrunarheimila í Fjarðabyggð

Mynd með færslu
Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð á Eskifirði  Mynd: RÚV
Heilbrigðisstofnun Austurlands tekur við rekstri hjúkrunarheimilanna Hulduhlíðar á Eskifirði og Uppsala á Fáskrúðsfirði 1. apríl. Fjarðabyggð var eitt fjögurra sveitarfélaga sem sagði upp samningum við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimila.

Fjarðabyggð sagði samningunum upp 22. september og lýkur samningstímanum um næstu mánaðamót. Sjúkratryggingar auglýstu reksturinn en fékk engin viðbrögð.

Heilbrigðisstofnun Austurlands rekur fyrir hjúkrunarheimilið Dyngju á Egilsstöðum, Fossahlíð á Seyðisfirði og hjúkrunarheimili Sjúkrahússins í Neskaupstað. Í tilkynningu frá Heilbrigðisráðuneytinu er haft eftir Guðjóni Haukssyni, forstjóra HSA, að taka við rekstri Hulduhlíðar á Eskifirði og Uppsölum á Fáskrúðsfirði sé stórt og mikilvægt verkefni. Hann muni funda með starfsfólki hjúkrunarheimilanna hið fyrsta til að ræða undirbúning þess að taka við rekstrinum um næstu mánaðamót.

Með þessum samningum hefur rekstur hjúkrunarheimila verið leystur í tveimur af þeim fjórum sveitarfélögum sem sögðu upp samningum um þennan rekstur við Sjúkratryggingar Íslands, það er á Hornafirði og í Fjarðabyggð. Á Akureyri og í Vestmannaeyjum er enn óljóst hver tekur við rekstri hjúkrunarheimila þar.