Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hræddir hundar á kvíðastillandi vegna jarðskjálftanna

Hræddur hundur í jarðskjálfta
 Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir - Ljósmynd
Dýralæknir segir mikið um að hundaeigendur hafi samband  vegna vanlíðunar hunda sinna í jarðskjálftunum. Nokkuð er um að hundar fái kvíðastillandi lyf til að slá á óróleikann en mikilvægast er að sýna þeim hlýju og stuðning.

Hanna Arnórsdóttir dýralæknir á Dýraspítalanum í Garðabæ og sérfræðingur í atferli dýra segir að hundar skynji skjálftavirkni á annan hátt en menn. Þeir heyri drunur þeirra og finni betur fyrir smærri skjálftum. Dæmi séu um að hundar haldi vöku fyrir heimilisfólki heilu næturnar vegna jarðskjálfta.

Hún segir að sumir hundar bresti í gelt þegar skjálftar ríða yfir vegna húsmuna sem hristist til. „Svo eru sumir sem fá hreinlega kvíðalyf á meðan þetta stendur yfir. Sérstaklega þeir sem áður hafa sýnt hræðslu við viðlíka aðstæður eins og á gamlárskvöld, þá vekur þetta upp sömu líðan,“ segir Hanna.

Hún segir að algeng viðbrögð hjá hundunum sé að reyna að komast undan, flýja eða fela sig. Þá leiti þeir gjarnan út. „Og margir hundar leita til eigenda sinna , koma þétt upp að þeim og biðla til þeirra um að láta þetta nú hætta,“ segir Hanna.

Hún segir mikilvægt að sýna hundum skilning og leyfa þeim að vera nálægt sér. Ekki megi loka þá inni. Margar leiðir séu til að róa hræddan hund í skjálftahrinu.  „Þegar skjálfarnir voru verstir hérna í byrjun og komu hver á fætur öðrum þá fór fólk í smá bíltúr með hundinn því þú finnur þetta ekki í bílnum. Í flestum tilfellum er nóg að sýna þeim stuðning,“ segir Hanna.