Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjórir kostir til að efla ofanflóðavarnir á Flateyri

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Verkfræðistofan Verkís leggur til fjórar tillögur til þess að efla varnir gegn ofanflóðum á Flateyri í Önundarfirði. Meðal þeirra er að styrkja húsin efst í bænum og setja snjósöfnunargrindur á Eyrarfjall sem myndu minnka snjómagnið sem safnast upp í giljunum fyrir ofan þorpið.

Þessir fjórir kostir eru lagðir fram eftir snjóflóð sem féllu í Önundarfirði og Súgandafirði í janúar í fyrra. Þeir eru fyrsta skref í umfangsmeiri tillögum að því að efla ofanflóðavarnir á Flateyri. Í þessu fyrsta skrefi var kannað hvaða aðgerðir væri hægt að ráðast í strax í sumar og hvaða árangri þær myndu skila. Heildartillögur að efldum ofanflóðavörnum á Flateyri verða settar fram í skýrslu sem kemur út í vor. 

Skothelt gler við glugga og steypt anddyri

Styrking húsa við Ólafstún fælist meðal annars í því að setja skothelt gler fyrir glugga sem snúa upp í hlíðina. Einnig að annað hvort styrkja hurðar og dyraop sem snúa í sömu átt eða steypa sérstakt anddyri þar utan um. Þá kæmi til greina að styrkja þakskegg og loftplötu ef með þarf. Þessar aðgerðir ættu við steinsteypt hús, en aðrar lausnir þyrfti fyrir timburhús. Til þessara ráðstafana hefur meðal annars verið gripið í austurrísku Ölpunum. Ávinningur þessara aðgerða yrði ótvíræður, að mati verkfræðistofunnar. Sjö hús hafa verið skoðuð með tilliti til þessa en lagt er til að byrja á að styrkja þrjú þeirra.

Snjósöfnunargrindur á Eyrarfjalli

Verkís leggur þá til að prófað yrði að setja snjósöfnunargrindur upp á Eyrarfjall, fyrir ofan Innra-Bæjargil og Skollahvilft, en þaðan koma snjóflóðin sem falla í átt að Flateyri. Með því á að minnka snjómagnið sem safnast þar upp og minnka líkurnar á að flóð falli. Þetta hefur til dæmis verið prófað á Patreksfirði.

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Grafið yrði vinstra megin við leiðigarðinn. Í fjallinu ofan garðs sjást Skollahvilft til hægri og Innra-Bæjargil til vinstri

Víkkun flóðrása og jarðvegsrannsóknir í höfninni

Með víkkun flóðrása við Innra-Bæjargilsgarð á að auka það snjómagn sem nyrðri leiðigarðurinn getur leitt fram hjá þorpinu. Þá yrðu minnst 140 þúsund rúmmetrar jarðvegs grafnir upp. Skipulagsstofnun þyrfti að gefa álit á því hvort þörf yrði á umhverfismati vegna framkvæmdarinnar.

Jarðvegsrannsóknir í höfninni væru til þess gerðar að skoða mögulega gerð hafnargarðs. Í fyrra leiddi leiðigarðurinn snjóflóðið fram hjá þorpinu og beint í höfnina með þeim afleiðingum að sex bátar sukku. Varnargarður við höfnina myndi hamla því að það endurtæki sig.

Hægt að byrja fljótlega og klára flest á þessu ári

Í minnisblaði bæjarstjóra segir að hægt sé að hefjast handa við tillögurnar fljótlega og klára þær flestar fyrir árslok. Kostnaður við styrkingu húsa, snjóasöfnunargrindurnar og víkkun flóðrása við garðinn væri allt að 345 milljónum. Níutíu prósent þess kostnaðar greiðist úr Ofanflóðasjóði, en tíu prósent koma frá Ísafjarðarbæ. Ofanflóðasjóður myndi greiða allan kostnað við jarðvegsrannsóknir í höfninni, en ekki kom fram í kynningu Verkís hvað það kostar. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fundar á morgun. Þar verður lagt til að samþykkja að hefja vinnu við þessa fjóra kosti.

Hér er hægt að skoða tillögur Verkís.

Fréttin hefur verið uppfærð með auknum upplýsingum.