Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dæmi þess að fólk finni fyrir sjóveiki vegna skjálfta

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Það er enn mikil skjálftavirkni á Reykjanesskaga þó dregið hafi úr henni síðastliðinn sólarhring. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, segir að á meðan hrinan sé í gangi séu enn líkur á stórum skjálfta eða eldgosi. Skjálftar finnast misvel á suðvesturhorninu og Kristín segist hafa heyrt dæmi þess að fólki í háum húsum á höfuðborgarsvæðinu finnist það vera sjóveikt þegar margra skjálfta verður vart á stuttum tíma.

Í morgun varð skjálfti af stærðinni 3,8 en hann fannst vel víða á suðvesturhorninu og Kristín segir líklegt að hann hafi verið stærri en það og mælingin sé röng. „Við erum enn að skoða stærðina, það er alveg hugsanlegt að hún sé ekki alveg rétt hjá okkur. Skjálftinn varð einn kílómetra suðvestur af Keili, það hefur einhver áhrif en ætti kannski ekki að hafa alveg svona mikil áhrif, það getur verið að hann sé aðeins grynnri en það er það sem við erum að skoða núna,“ segir Kristín. 

Hún segir að á meðan hrinan er í gangi séu auknar líkur, bæði á eldgosi og stærri skjálftum. Það geti bæði verið á þessu svæði eða við Brennisteinsfjöll. Það hefur dregið úr virkninni en skjálfta verður enn vart á suðvesturhorninu, en misvel eftir því hvar fólk er statt. „Svo skiptir máli hvernig undirlag bygginganna er, hvort þær standi á klöpp eða hvort þær séu á setlögum eða mýri. Og fólk sem er á efri hæðum bygginga finnur oft mjög mikið fyrir þessu og ég hef alveg heyrt dæmi þess að fólk verði dálítið sjóveikt, sérstaklega þegar svona margir skjálftir verða hver á eftir öðrum,“ segir Kristín. 

Von er á niðurstöðum mælinga úr mælingum á morgun. Kristín segir að niðurstöður úr gervitunglum komi í kvöld. Þá þurfi að vinna úr þeim og niðurstöðu sé að vænta um hádegi á morgun.