Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfir fjórtán þúsund skjálftar

Myndin sýnir vel svæðið milli Keilis og Fagradalsfjalls (lengst til vinstri) þar sem flestir skjálftarnir eiga rætur. Sést líka vel yfir á Reykjanesbæ.
Myndin er tekin frá Spákonuvatni sunnan Trölladyngju.
 Mynd: Einar Páll Svavarsson
Skjálftarnir í hrinunni sem staðið hefur yfir á Reykjanesi frá því á miðvikudag í síðustu viku eru nú orðnir fleiri en fjórtán þúsund. Þótt svo enginn jarðskjálfti hafi náð þremur að stærð frá hádegi þegar þetta er ritað, laust fyrir miðnætti, hefur hver skjálftinn rekið annan. Þeir hafa þó verið litlir, flestir undir tveimur og margir undir einum.

Kvikugangur sem myndast hefur milli Fagradalsfjalls og Keilis er eins og hálfs metra breiður samkvæmt bráðabirgðaútreikningum og hugsanlega fimm kílómetra langur, sagði Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvár á Veðurstofunni, í Kastljósi í kvöld. „Þetta er ennþá að krauma ofan í jörðinni. Ef þetta heldur áfram þá er líklegt að áður en kvikan kemur upp á yfirborð þá er líklegt að það myndist sig ofan á þessum gangi. Það er eitthvað sem við erum að fygljast með líka.“

Skjálftavirknin hófst í síðustu viku en það var ekki fyrr en í gær sem vísindamenn fengu upplýsingar um hugsanlega virkni sem gæti á endanum leitt til eldgoss. 

Óljóst er á þessari stundu hvað hófst fyrst, skjálftavirknin sem hefði þá getað opnað fyrir berggang og kvikumyndun, eða berggangurinn sem talinn er hafa myndast nærri Keili og Fagradalsfjalli. „Mér finnst alveg líklegt að þessar fyrstu hreyfingar hafi verið tektónískar og hafi komið þessu af stað, en þetta er örugglega rannsóknarefni næstu ára,“ sagði Kristín í Kastljósi og hallaðist frekar að því að jarðskjálftinn hefði hleypt öllu af stað en að hann hefði verið birtingarmynd berggangsins.

Myndir sem teknar voru af skjálftasvæðinu á miðvikudag sýndu ekki þá gliðnun sem greinst hefur síðustu daga, sagði Kristín. Fyrstu dagana eftir stóra skjálftann á miðvikudag virtist skálftavirknin vera að ganga niður en svo tók hún sig upp að nýju á sunnudaginn og hefur verið mjög áköf síðan, sagði Kristín. „Það er spurning hvort að þetta ferli hafi hafist þá.“