Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja þrjá áfram í gæsluvarðhald

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RUV
Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þremur einstaklingum sem eru í haldi vegna morðsins í Rauðagerði. Íslendingur sem var í haldi lögreglu var látinn laus í dag en honum gert að sæta farbanni til loka mánaðar.

Rannsókn lögreglu á morðinu á Armando Bequiri í Rauðgerði um miðjan febrúarmánuð miðar vel að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Fimm eru í gæsluvarðhaldi sem stendur, fjórir til morguns og einn fram á föstudag. Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þremur þeirra á morgun en ekki hefur verið tekin ákvörðun með hina tvo. „Rannsókninni miðar bara nokkuð vel miðað við umfang og við höfum síðustu daga verið í yfirheyrslum og vinna úr gögnum,“ segir Margeir.

Íslendingurinn laus en í farbann

Íslenskur karlmaður sem setið hefur í haldi vegna málsins í hálfan mánuð var látinn laus í dag, en héraðsdómur úrskurðaði hann í fjögurra vikna farbann í dag af kröfu lögreglunnar. Þá var litháískur karlmaður látinn laus í gær og úrskurðaður í átta daga farbann. Skýrist mismunandi lengd farbanns af stöðu þeirra í málinu.

Margeir býst við að rannsóknin muni standa yfir í einhverjar vikur til viðbótar enda afar viðamikil. „Það er einmitt það sem við erum að skoða og rannsóknin beinist að, það er að kanna þátt hvers og eins í málinu. Og hann getur verið mismikill.“

Ákærur skýrast á síðari stigum

Margeir segist ekki geta svarað því hvort morðvopnið sé fundið eða hvort játning liggur fyrir, en þeir sem hafa verið í haldi hafa verið mis samvinnuþýðir við rannsóknina. Hann getur ekki sagt til á þessu stigi hvort og þá hversu margar ákærur verða gefnar út. „Það bara kemur í ljós á síðari stigum þegar að við skilum máli til ákærusviðs sem metur þá gögnin sem við berum til þeirra, hvort það verði gefin út ákæra eða hvernig það er.“