Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verðum að læra að lifa með eldgosum

Mynd: Freyr Arnarson / Freyr Arnarson
Um 800 ár eru liðin frá síðustu eldsumbrotum á Reykjanesskaga og jarðsagan segir að hann sé kominn á tíma. Gervihnattarmyndir sem bárust í gær (mánudaginn 1. mars) og Vísindaráð almannavarna fór yfir sýna meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga.

Myndin breyttist síðdegis í gær

Jarðeðlisfræðingar hafa hingað til talið að eldgos væri ólíklegur fylgifiskur jarðhræringanna á Reykjanesskaga, en myndin breyttist seinni partinn í gær. Nú segir Vísindaráð almannavarna að  líklegasta skýringin á færslunni sé sú að kvikugangur sé að myndast undir því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið síðustu daga. Þess vegna sé ein sviðsmyndin sú að kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall. Í framhaldinu geti:  a) Kvikuinnskotsvirkni minnkað og kvika storknað eða b) Innskotið leitt til flæðigoss með hraunflæði sem muni líklega ekki ógna byggð. 

Mannvirki ekki í hættu

Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands hefur útbúið kort sem sýnir hugsanlega hraunrennslisstefnu ef til goss kæmi, sem er alls óvíst að verði.  Þorvaldur Þórðarson prófessor í í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands ræddi við Spegilinn í gær um hugsanlegt hraunrennsli goss.

Þorvaldur segir að þó Reykjanesskagi sé kominn á tíma þá geti sá tími þýtt eitt ár, 10 ár, tugir ára eða 100 ár. Hann segir að samkvæmt útreikningum hópsins flæði hraun úr gosi fjarri þéttbýli og að mannvirki verði ekki í hættu, nema hugsanlega hluti Reykjanesbrautar.

Mikilvægt að upplýsa almenning

Þorvaldur ræðir einnig um jafnvægið á milli upplýsingagjafar vísindamanna/stjórnvalda og ótta almennings, meints rígs og metings á milli hinna ýmsu greina jarðfræðinnar o.fl. 

Hluta af Spegilsviðtalinu við Þorvald má heyra í spilaranum hér að ofan. Þess skal getið að viðtalið var tekið áður en Vísindaráð almannavarna fór yfir gervihnattarmyndirnar.