Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Veður með stilltara móti miðað við árstíma

02.03.2021 - 06:50
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Veðurstofan spáir dálítilli rigningu eða slyddu, golu eða kalda sunnan- og vestanlands. Það bætir í úrkomu eftir hádegi en hægviðri verður Norðan- og Austanlands og þurrt fram eftir degi.

Þar þykknar upp með slyddu eða snjókomu þegar líða tekur á daginn og gengur í norðaustan 8 til 15 metra á sekúndu í kvöld.  Hiti verður á bilinu eitt til sex stig en kringum frostmark fyrir norðan og austan. 

Á morgun er spáð suðaustan strekkingi með suður- og vesturströndinni og rigningu eða slyddu af og til, en hægari og þurrt að kalla í uppsveitum. Á Norður- og Austurlandi léttir til og verður víða vægt frost þar.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að á fimmtudag og föstudag er spáð aðgerðalitlu veðri, með fremur hægum vindi og lítilli eða engri úrkomu á landinu.

Hæglega getur verið illviðrasamt í mars, að sögn veðurfræðings, enda
telst mánuðurinn vera fjórði og síðasti vetrarmánuðurinn í veðurlegu
tilliti. Veðrið þessa vikuna telst með rólegra móti miðað við árstíma.

Vetrarfærð er um norðan- og vestanvert landið en að mestu greiðfært á Austur- og Suðausturlandi að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV