TikTok-forritið er í eigu kínversksa snjallfyrirtækisins ByteDance. Á forritinu deila notendur stuttum myndböndum sem aðrir notendur geta síðan látið sér líka við, gert athugasemdir við, eða jafnvel notað í eigin myndbandagerð; ýmist með því að sauma hluta úr upprunalega myndbandinu framan við eigið myndband, taka dúett með myndbandinu þar sem gamla og nýja myndskeiðið skipta skjánum jafnt á milli sín eða nota bara hljóðið úr upprunalega myndbandinu til þess að gera sína eigin útgáfu af upprunalegu hugmyndinni.
TikTok-dansar eru líklega þekktasta afsprengi miðilsins hingað til en forritið inniheldur þó ýmislegt fleira. Algrím þess þykir sérlega gott í að átta sig á hvað hver notandi hefur gaman af að sjá og stýrir efni úr öllum áttum inn á upphafssíðu viðkomandi notanda, svonefnt „For Your Page“ sem er bæði sefandi og einstaklega ávanabindandi staður. Með því að forgangsraða efni eftir áhuga, fremur en eftir vinatengslum eins og Instagram og Facebook, gerir algrímið framleiðendum kleift að koma fyrir mun fleiri augu en ella. Þannig hefur það á skömmum tíma skapað fjöldan allan af ungum stjörnum sem eru raunverulega heimsfrægar, en samt bara á TikTok.
Fjórir íslenskir TikTok-framleiðendur tóku sér far með Lestinni á Rás 1 í febrúar: grínisti sem dreymir um frægð í útlöndum, förðunarfræðingur með hátt í milljón fylgjendur, baráttukona sem hefur áhyggjur af áhrifum forritsins og grunnskólanemi sem blandar saman gríni og alvöru.
Hættur að einblína á að ná vinsældum
Hafnfirðingurinn Arnar Gauti er best þekktur undir notandanafninu sínu, Lil’Curly og er með tæplega 370 þúsund fylgjendur á TikTok. Hann er 23 ára, gekk í Flensborg og fór eftir það í flugnám en fann sig einhvern veginn ekki. Hann langaði alltaf að vera þekktur og hafði gert tilraunir til þess að finna frægð með vinum sínum á miðlum eins og YouTube og Instagram, en þær gengu illa. Hann varð spenntur fyrir TikTok þegar hann fékk strax yfir 3.000 áhorf á fyrsta myndbandið sitt. Þegar hann setti inn myndband af sér (að þeyta skífum á skemmtistaðnum B5 með listilegri skiptingu milli laga) og uppskar yfir tíu milljónir áhorfa, vissi hann að TikTok væri lykillinn að frægðarferli.