TikTok: Forrit sem elur upp nýja kynslóð

Mynd með færslu
 Mynd: TikTok

TikTok: Forrit sem elur upp nýja kynslóð

02.03.2021 - 13:00

Höfundar

Árið 2009 var „Tik Tok“ frekar hallærislegt popplag. Árið 2021 er TikTok sá samfélagsmiðill heims sem vex hvað örast og þeir sem eru nógu gamlir til að muna eftir TikTok eru eiginlega of gamlir til að teljast gjaldgengir TikTok-arar.

TikTok-forritið er í eigu kínversksa snjallfyrirtækisins ByteDance. Á forritinu deila notendur stuttum myndböndum sem aðrir notendur geta síðan látið sér líka við, gert athugasemdir við, eða jafnvel notað í eigin myndbandagerð; ýmist með því að sauma hluta úr upprunalega myndbandinu framan við eigið myndband, taka dúett með myndbandinu þar sem gamla og nýja myndskeiðið skipta skjánum jafnt á milli sín eða nota bara hljóðið úr upprunalega myndbandinu til þess að gera sína eigin útgáfu af upprunalegu hugmyndinni. 

TikTok-dansar eru líklega þekktasta afsprengi miðilsins hingað til en forritið inniheldur þó ýmislegt fleira. Algrím þess þykir sérlega gott í að átta sig á hvað hver notandi hefur gaman af að sjá og stýrir efni úr öllum áttum inn á upphafssíðu viðkomandi notanda, svonefnt „For Your Page“ sem er bæði sefandi og einstaklega ávanabindandi staður. Með því að forgangsraða efni eftir áhuga, fremur en eftir vinatengslum eins og Instagram og Facebook, gerir algrímið framleiðendum kleift að koma fyrir mun fleiri augu en ella. Þannig hefur það á skömmum tíma skapað fjöldan allan af ungum stjörnum sem eru raunverulega heimsfrægar, en samt bara á TikTok.

Fjórir íslenskir TikTok-framleiðendur tóku sér far með Lestinni á Rás 1 í febrúar: grínisti sem dreymir um frægð í útlöndum, förðunarfræðingur með hátt í milljón fylgjendur, baráttukona sem hefur áhyggjur af áhrifum forritsins og grunnskólanemi sem blandar saman gríni og alvöru.

Hættur að einblína á að ná vinsældum

Hafnfirðingurinn Arnar Gauti er best þekktur undir notandanafninu sínu, Lil’Curly og er með tæplega 370 þúsund fylgjendur á TikTok. Hann er 23 ára, gekk í Flensborg og fór eftir það í flugnám en fann sig einhvern veginn ekki. Hann langaði alltaf að vera þekktur og hafði gert tilraunir til þess að finna frægð með vinum sínum á miðlum eins og YouTube og Instagram, en þær gengu illa. Hann varð spenntur fyrir TikTok þegar hann fékk strax yfir 3.000 áhorf á fyrsta myndbandið sitt. Þegar hann setti inn myndband af sér (að þeyta skífum á skemmtistaðnum B5 með listilegri skiptingu milli laga) og uppskar yfir tíu milljónir áhorfa, vissi hann að TikTok væri lykillinn að frægðarferli. 

Mynd: lilcurly / Tiktok

„Ég er búinn að vera í þessu núna í ár. Og ég er búinn að vera heillengi að gera efni sem virkar til að blowa upp – fá fullt af followers og likes og svoleiðis,” segir Arnar. Hann segir þó að fylgjendur hans hafi ekki endilega tengt við það efni, sem var gagngert miðað að því að ná til fleira fólks og fjölga þannig í fylgjendahópnum.

„En núna er ég farinn að gera efni sem mér finnst skemmtilegra að gera og fylgjendunum finnst skemmtilegra að horfa á. Áður fyrr var ég að gera mjög svona viral efni. Eitthvað sem heppnaðist á þriggja mánaða fresti og ég á nokkur svoleiðis myndbönd. Eitt í 20 milljón views, eitt í 15, en þetta gengur ekki ef þú gerir bara svoleiðis.“

Arnar er ekki beinlínis grínisti. Hann segir ekki brandara í myndböndum sínum, en þau ganga þó flest út á grín og glens. Hann er hrifnari af orðinu influencer en íslensku þýðingunni áhrifavaldur en fyrir honum er markmiðið einfaldlega að skemmta. Hann á sér þó auðvitað stærri drauma og vill gjarnan gera framleiðslu efnis á samfélagsmiðlum að varanlegum ferli. 

„Núna er ég til dæmis að byrja að gera YouTube-myndbönd,” segir Arnar og lýsir YouTube-framleiðslu sem meira sustainable career – meira framtíðarstarfi. Hann bendir á að áður hafi börn viljað verða geimfarar og forsetar, en í nýlegri bandarískri könnun hafi komið fram að flest nútímabörn vilji verða YouTube-stjörnur. 

„Það er meira viðurkennt dæmi að vera vinsæll þar inni. Planið er ekkert að verða uppistandari eða neitt svoleiðis. Bara að verða nógu frægur til að geta lifað af þessu... Stækka nógu mikið til að fá tækifæri til að gera það sem ég vil gera seinna, en ég veit ekkert hvað það er núna.“

Flestir fylgjendanna frá Bandaríkjunum

Embla Wigum er með yfir 850 þúsund fylgjendur á forritinu þar sem hún deilir stuttum myndböndum af sér farða sig. Útkoman er nánast undantekningarlaust ævintýraleg enda sérhæfir hún sig í eins konar fantasíu-förðun. En hverjir eru allir þessir fylgjendur?

„Langstærsti hópurinn er frá Bandaríkjunum. Og þetta eru helst stelpur. [Það eru] alveg 90 og eitthvað prósent stelpur sem að fylgja mér, á aldrinum svona 19 til 24 ára,” segir Embla. „Eitthvað frá Norðurlöndunum, þannig að þetta er bara mjög víða um heiminn.”

Embla segir að á Íslandi sé ekki hægt að fá tekjur beint frá samfélagsmiðlunum sjálfum, en að hún vinni með nokkrum fyrirtækjum og auglýsi vörur þeirra á TikTok og Instagram. Þannig hafi henni tekist að búa til feril út frá eigin vörumerki, þó hún lifi ekki af samfélagsmiðlunum einum enn sem komið er. 

„Það er bara frekar nýlega, þannig séð, sem ég er farin að geta unnið við þetta. Lengi vel var ég að pósta en ekki að fá neinar tekjur út frá því,“ segir Embla. „Ég var bara að pósta af því mér fannst það gaman, og ég var alveg að fá athygli út á það og fylgjendur og eitthvað. En það var bara frekar nýlega, þegar ég fór að fá hjálp við að fá samstarf, að ég fattaði að þetta gæti verið bara full vinna.”

Mynd: emblawigum / Tiktok

Eitt stærsta augnablikið á TikTok-ferlinum hingað til kom frekar snemma, þegar hún gerði myndband af förðun með hinsegin-þema í anda gleðigöngunnar, og fékk um 100 þúsund áhorf.

„Þá var mér boðið af TikTok Nordics að fara út til Berlínar að fagna Gay Pride með þeim. Ég fór með kærastanum minum og það var ógeðslega gaman en þá einmitt fékk ég bara svona: Vá! Ég er bara komin hingað!” segir Embla. „Þá var þetta meira einhvern veginn raunverulegt. Út af því að það er allt annað að sjá bara tölu á skjá, þá er þetta svo fjarlægt manni.“

Tók upp símtöl við þingmenn

Harvard-neminn verðandi Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir á í flóknu sambandi við TikTok. Hún er með rúmlega 3.100 fylgjendur og nýtir miðilinn í baráttu fyrir umhverfisvernd og nýrri stjórnarskrá. Hún hefur þó einnig áhyggjur af áhrifum hans á ungt fólk. Gunnhildi finnst það besta við TikTok hversu auðvelt er að koma skilaboðum til fólks á stuttum tíma, sé framsetningin grípandi og skemmtileg.  

„Ég tók upp símtöl við þingmenn þar sem ég var að drilla þau um nýju stjórnarskrána,” segir Gunnhildur, sem dæmi um myndband sem fór á flug. „Það kom rosalega illa út, en myndbandið fékk 50 þúsund áhorf og allir voru brjálaðir, á tveimur dögum, því algóritminn er dálítið klár.” Hún tekur þó fram að athæfið hafi verið „pínu ólöglegt”.

Mynd: Guggarugga / Tiktok

Á meðan þau Embla og Arnar Gauti framleiða nánast allt sitt efni á ensku, talar Gunnhildur Fríða um „spillingu á Íslandi á íslensku.” Markhópur hennar er sérhæfðari en áhorfstölurnar eru þeim mun þýðingarmeiri. 

Gunnhildur, sem er 19 ára, hefur áhyggjur af TikTok-notkun yngra fólks og skrifaði opið bréf til foreldra, sem birtist í Stundinni, ásamt tveimur öðrum TikTok-framleiðendum. 

„Ef einhver ungur strákur hefur áhuga á fótbolta þá er næsta skrefið hjá algóritmanum: „Já, hann fílar örugglega líka tölvuleiki.” Og algóritminn hefur gert tengingu milli tölvuleikja og anti-femínisma,” segir Gunnhildur. Næst sýni algóritminn notandanum unga því andfeminísk myndbönd sem leiðir hann áfram að myndböndum gegn veganisma og skyndilega sé notandinn kominn í baneitrað umhverfi öfga hægrisins. 

„Ef öll myndböndin sem hann sér eru um þetta heldur hann að þetta sé eðlilegt sjónarhorn og fer að kommenta um þetta og þetta leiðir af sér rosalega sundrung í samfélaginu.” 

Gunnhildur bendir auk þess á að algrótminn hjá TikTok upphefji staðlaðar, íhaldssamar hugmyndir um fegurð, þar sem hvítt, ungt, grannvaxið fólk fær meiri dreifingu en aðrir. 

Ungir í athugasemdum óöruggir með sjálfan sig

Anna María Sonde er 14, að verða 15, ára nemandi í Langholtsskóla og situr þannig akkúrat á miðju aldursbili Z-kynslóðarinnar svokölluðu. Henni finnst fólk vera „gamalt” á TikTok ef það er komið yfir tvítug. Anna María byrjaði að setja inn myndbönd í haust eftir að hafa verið með appið lengi og er í dag með rúmlega 3.600 fylgjendur.

Hún, eins og Gunnhildur, fjallar mikið um mál sem á henni brenna: femínisma og baráttuna gegn rasisma og segist hafa viljað auka meðvitund fólks um reynslu svartra og dökkra einstaklinga á Íslandi. 

„Aðalhatrið sem ég fæ á TikTok er rasískt þar sem ég er blönduð,” segir Anna María sem á íslenska móður en faðir hennar er frá Búrkína Fasó. „Eftir ákveðinn tíma var ég bara komin með upp í kok og ákvað að gera vídjó um það.”

Almenningur heldur sig kannski þekkja hatrið sem Anna María talar um og tengir það við virka í athugasemdum. En virkir í athugasemdum virðast yfirleitt vera fullorðið fólk, jafnvel vel fullorðið, og það heldur sig helst í athugasemdakerfum fjölmiðla. Hatrið sem Anna María hefur einna helst orðið vör við kemur hins vegar í formi athugasemda á TikTok.

„Þetta eru bara allt einhverjir svona 10 til 15 ára strákar oftast,” segir Anna María og telur upp níðyrðin sem á henni dynja, sem sum hver eru ekki birtingarhæf. „Það hefur engin áhrif á mig en það er alveg þreytandi að fá svona annan hvern dag... Ég veit að ef þú ert að kommenta svona hjá fólki þá virkilega vantar eitthvað í uppeldið eða þú ert bara óöruggur með sjálfan þig.“

En segir einhver svona hluti við hana undir nafni? „Nei, eiginlega ekki, nema bara gamalt fólk á Facebook.”

Mynd: annasonde / Tiktok

Anna María kippir sér lítið upp við það þó að þúsundir fylgist með henni. Hún flissar smá að spurningunni og segist upplifa fylgjendur sem vini sína. Hún finnur þó fyrir ákveðinni pressu og setur helst inn efni daglega svo fylgjendur missi ekki áhugann.

Vinsælasta myndbandið hennar hefur fengið tæplega 60 þúsund áhorf en þar bregst hún við athugasemd frá dreng sem gagnrýnir hárvöxt kvenna. Í myndbandinu sýnir hún handakrikana og kveðst ætla að birta annað myndband tveimur vikum síðar til að sýna honum hversu mikið hár hefur sprottið. Hún viðurkennir að hafa farið langt út fyrir þægindarammann með myndbandinu en segir viðbrögðin hafa styrkt hana. „Jákvæðnin sem ég fæ á TikTok-in mín vegur alltaf út hatrið.”

Raunar verður til ákveðin hringrás. Anna María valdeflir sjálfa sig í myndböndunum sínum, sem valdeflir fólk sem fylgist með henni og þegar það skrifar jákvæðar athugasemdir styrkist hún enn frekar. Hún segist ekki vera háð forritinu en þegar hún er innt eftir því hvort hún gæti hætt á því samdægurs hikar hún fyrst og fer svo að hlæja. „Mig langar að segja já en ég er alveg með góðar tvær hugmyndir fyrir vídjó.”

Og hvað þá með framtíðina? Arnar Gauti talaði um YouTube-drauma en skyldi Anna María líka þrá frægðina? „Mig langar að verða þekkt í framtíðinni, hvort sem það verður fyrir TikTok eða fyrir að hafa breytt heiminum,” segir hún og nefnir áhuga sinn á stjórnmálum og lögfræði. Hún sér samfélagsmiðla sem bestu leiðina til að ná til sinnar kynslóðar.

En hvort er þá mikilvægara, að vera fræg eða hafa áhrif? „Hafa áhrif, 100 prósent. Frægð skiptir eiginlega engu ef þú ert ekki að gera neitt með hana.”

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

TikTok bætir stillingar til að auka friðhelgi barna

Erlent

Enn næst ekki samkomulag um TikTok

Tækni og vísindi

Nöfn 411 Íslendinga í gagnaleka kínversks fyrirtækis

Stjórnarskrá

Fræða jafnaldra sína um nýja stjórnarskrá á TikTok