Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þriðja konan sakar Cuomo um kynferðislega áreitni

02.03.2021 - 16:27
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York ríkis.
 Mynd: Peter Foley - EPA
Þriðja konan gaf sig fram í gær og greindi frá kynferðislegri áreitni Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York, gegn sér. Anna Ruch segist hafa hitt Cuomo í brúðkaupsveislu haustið 2019. Þar snerti Cuomo bert mjóbak hennar og bað um að fá að kyssa hana. Ruch segist hafa ýtt ríkisstjóranum frá sér.

Cuomo sendi frá sér yfirlýsingu á sunnudag þar sem hann kvaðst vera búinn að biðja um óháða rannsókn á ásökunum gegn sér. Í yfirlýsingunni sagði hann jafnframt að þær tvær konur sem þá höfðu sakað hann um áreitni, Charlotte Bennett og Lindsey Boylan, hafi misskilið hann.

Letitia James, ríkissaksóknari New York, staðfesti í gær að skrifleg beiðni hefði borist frá skrifstofu Cuomo um að rannsaka ásakanirnar. Al Jazeera fréttastofan hefur eftir James að embættið taki málið alvarlega, líkt og alltaf eigi að gera þegar ásakanir berast um kynferðislega áreitni.