Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Þetta brýtur mann svolítið mikið niður“

Mynd: FRÍ / FRÍ

„Þetta brýtur mann svolítið mikið niður“

02.03.2021 - 18:45
Eitt stærsta rafíþróttamót heims verður haldið í Laugardalshöll í maí. Það eru þó ekki allir sáttir við það, því frjálsíþróttafólk sem æfir í höllinni missir æfingaaðstöðuna sína í sex vikur vegna mótsins. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, spretthlaupari, segir þetta draga verulega úr vonum hennar um að komast inn á Ólympíuleikana.

Íslandsstofa aðstoðaði erlenda mótshaldara við að finna stað fyrir mótið. 400 manns koma hingað til lands í tengslum við mótið og segir í tilkynningu frá Íslandsstofu að hópurinn muni kaupa um átta þúsund gistinætur á íslenskum hótelum.

Rafíþróttir hafa vaxið hratt um allan heim undanfarið og er Ísland engin undantekning. Þó því sé fagnað að mótið skuli haldið hér er frjálsíþróttafólk sem æfir í Laugardalshöll síður en svo ánægt með að missa æfingaaðstöðuna sína í sex vikur.

Ein þeirra er Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir spretthlaupari sem reynir við að komast inn á Ólympíuleika. 

„Þetta leggst bara mjög illa í mig og alla þá sem æfa í Laugardalshöll,“ segir Guðbjörg Jóna.

„Það er mjög flott að þetta rafíþróttamót sé að koma en það er alls ekki gott að þau séu að koma og taka æfingaaðstöðuna mína, og okkar sem æfum í Laugardalshöll, í sex vikur. Þetta er alveg út í hött. Maður er bara sjokkeraður,“ bætir hún við. 

„Ekki skilaboðin sem hreyfingin vonaðist eftir“

Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambandsins, bendir á að önnur aðstaða í borginni er ekki fyrir hendi.

„Það væri kannski ekki svo stórt mál ef aðstaðan utandyra væri klár, væri í lagi. Í borginni er hún því miður ekki í lagi, eins og fram hefur komið margsinnis.“ segir Freyr

„Það þýðir að við náum alls ekki þessum gæðaæfingum og það þýðir að Ólympíuleikar fyrir okkur eru bara í hættu,“ bætir Guðbjörg Jóna við. 

„Íþróttafólkið, börnin, unglingarnir, þjálfararnir, hafa verið að þreyja þorrann í allan vetur í gegnum Covid. Reyna úr fjarska að halda utan um sína iðkendur þannig að þetta eru ekki þau skilaboð sem hreyfingin hafði vonast eftir,“ segir Freyr.

Guðbjörg Jóna segir þetta hafa mikil áhrif á hennar vonir um að komast inn á Ólympíuleikana.

„Þær minnka mjög mikið. Ég var farin að hafa áhyggjur út af Covid en svo fengum við að fara inn og það var bara geggjað, allir rosalega ánægðir,“ segir Guðbjörg Jóna.

„En svo núna þegar það er lokað þá get ég ekki náð gæðaæfingunum og þær aðrar sem æfa og ætla að ná Ólympíuleikunum eru með toppaðstæður og þær ná að æfa á meðan ég er að reyna að æfa á einhverju grasi einhvers staðar af því ég fæ ekki að komast á einhvern völl eða æfa inni. Þannig að þetta er mjög leiðinlegt og þetta brýtur mann bara svolítið mikið niður,“ segir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.