Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur ráðherra hafa verið röngu megin línunnar

Áslaug Arna og Andrés Ingi
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Fulltrúi Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis telur að efni símtala dómsmálaráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu hafi falið í sér óeðlileg afskipti. Þetta byggir hann á vitnisburði lögreglustjórans á nefndarfundi í morgun.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, gerði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis grein fyrir samtölum sem hún átti við Áslaugu Örnu Sigubjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, að morgni aðfangadags og vörðuðu upplýsingagjöf lögreglu í tengslum við veru fjármálaráðherra í Ásmundarsal.

Andrés Ingi Jónsson, fulltrúi Pírata í nefndinni, segir að eftir fundinn sé það hans tilfinning að ráðherra hafi verið röngu megin línunnar með því að hlutast til um einstök mál. „Það er svona mín tilfinning eftir það að ráðherrann hafi verið röngu megin línunnar þegar kemur að því að vera að hlutast um einstök mál í rannsókn. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða frekar tel ég.“

Ertu þá að meina að hún hafi haft óeðlileg afskipti af málinu?

„Já, það er það sem mér finnst eftir þetta.“

Gaf lögreglustjórinn í skyn að eitthvað í þessum símtölum hafi verið óeðlilegt eða óviðeigandi?

„Lögreglustjóri taldi í rauninni að megnið af þessum samskiptum hafa verið mjög eðlilega upplýsingagjöf milli undirmanns og ráðherra en svo komu þarna fram atriði sem þarf að skoða nánar.“

Andrés segir að vegna trúnaðar sem ríki um samskipti á fundum nefndarinnar geti hann ekki farið út í hvaða tilteknu atriði það eru. Hann segir þó að nefndin hafi ekki lokið umfjöllun um málið en næstu skref séu að finna í hvaða farveg það á að fara.