Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spurði um stöðuna ef flugvöllur væri í Hvassahrauni

Frá þingsetningu 6.desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Hvernig væru landsmenn settir með innanlandsflugið í Hvassahrauni og Reykjanesbrautina lokaða vegna hraunrennslis, spurði Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag. Þingmenn ræddu innviði og þjóðaröryggi í ljós óveðra, snjóflóða, aurskriða og jarðaskjálftahrina síðustu missera í umræðu utan dagskrár.

„Við erum rækilega á það minnt þessi misserin að við búum í lifandi landi sem er í sífelldri mótun og getur á stundum verið harðbýlt,“ sagði Njáll Trausti sem hóf umræðuna. 

„Værum við til dæmis þessa dagana vel sett með innanlandsflugvöll í Hvassahrauni? Væri það skynsamlegt ef til meiriháttar hamfara kæmi að vera með innanlandsflugið í uppnámi vegna staðsetningar í Hvassahrauni, Reykjanesbrautina lokaða vegna hraunrennslis og þar af leiðandi ótryggar samgöngur við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík? Hvernig ættum við að rýma byggðir á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu við slíkar aðstæður.“

Njáll Trausti sagði það væri fortakslaus skylda Alþingis og ríkisstjórnar að tryggja öryggi lands og þjóðar.

Verða að vinna betur saman

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að ef fárviðrið á norðanverðu landinu á aðventunni 2019 hefði kennt landsmönnum eitthvað þá væri það mikilvægi þess að stefna samfélagsins væri samhæfð, og að ólík ráðuneyti og stofnanir ynnu saman að skýrum markmiðum. „Vissulega er það svo að þó að við séum lítið samfélag þá virðist það alltof oft brenna við að stofnanir og ráðuneyti eigi erfitt með að vinna saman, hver og einn vill bara sjá um sína torfu og áttar sig ekki á því að öll erum við þjónar heildarinnar, þjónar samfélagsins alls.“

Katrín vísaði til eftirfylgnisskýrslu um aðgerðir sem ráðist var í eftir fárviðrið. Þá hefðu verið lagðar til 287 flýtiaðgerðir til að styrkja innviði og almannavarnir. Samkvæmt fyrstu eftirfylgni sé vinna hafin við 85 prósent langtímaaðgerða og búið að klára helming skammtímaverkefna strax tíu mánuðum eftir að vinnan hófst.

Fæðuöryggi

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, lagði áherslu á að framleiða sem mest af matvælum innanlands til að tryggja fæðuöryggi. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði Íslendinga sjálfum sér næga um ýmsa matvælaframleiðslu en þyrftu að bæta í grænmeti auk þess sem Íslendingar yrðu að vera sjálfbærari um framleiðslu áburðar og eldsneytis.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði áherslu á að gott skipulag yrði tryggt á almannavörnum og björgunarstarfi.

Skipulagsvald sveitarfélaga

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði mikilvægt að tryggja innviði en varaði við hugmyndum um að takmarka skipulagsvald sveitarfélaga. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mælti með því að ákveðnir grunn innviðir yrðu skilgreindir í landsskipulagi, sem skiptu alla landsmenn máli út frá þjóðaröryggishagsmunum. Slíka þætti ætti að ákveða í landsskipulagsstefnu en ekki í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Sterkt samfélag öruggt samfélag

„Þegar við lítum yfir síðustu misseri og ár held ég að við getum flest verið sammála um að stærsta öryggisógn sem hefur steðjað að okkar samfélagi sé heimsfaraldur kórónuveiru. Þar stendur Ísland ótrúlega vel í alþjóðlegum samanburði,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í lok umræðunnar og vísaði til heilbrigðiskerfis og innviða. „Sterkt samfélag er öruggt samfélag.“