Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir umsögn Matvælasjóðs lýsa fádæma fordómum

Mynd: Landinn / RÚV
Anna María Flygenring, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands, segir umsögn frá Matvælasjóði sem fylgdi höfnun styrkumsóknar er varðaði geitfjárafurðir lýsa fádæma fordómum.

Jafnframt sé hætta á að slík umsögn dragi verulega úr væntingum um að geitfjárrækt eigi sér framtíð hér á landi. Hún var til viðtals í morgunútvarpi Rásar tvö. 

Í umsögn Matvælasjóðs, sem var stofnaður á síðasta ári, sagði að fáránlegt væri að ein kjötafurð bættist við þar sem bændur ættu nógu erfitt með að afsetja lambakjöt. 

Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. 

„Annað er að geitin er sögð ganga mjög hart að landinu og við eigum nóg að halda gróðurþekjunni án þess að geit bætist þar við.“  Ófaglegt sé, að sögn Önnu Maríu, að láta eina kjötafurð, í þessu tilfelli geitakjöt, gjalda fyrir aðra.

Geitur á Íslandi séu færri en fimmtán hundruð. Geitur valdi því engum uppblæstri eða ofbeit enda flestar innan ræktaðra hólfa.

Einnig hafi verið talað um það í umsögninni að þar sem enginn áhugi hafi verið á að elda mat úr geitakjöti í þúsund ár sé engin ástæða nú til að styrkja uppskriftabók. 

Enskusletta í umsögninni hafi orðið til að kóróna allt. „Þetta eigi hvort sem er ekki að vera eitthvað take-away. Sem mér finnst vera til skammar fyrir umsögn þar sem er vísað til erindis úr Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.“ 

Anna María var einnig í viðtali í Bændablaðinu þar sem hún sagðist vona að  stjórnarmenn Matvælasjóðs gæti betur að sér við næstu úthlutun. „Athugi til að mynda hvort sjóðurinn vinni jafnt fyrir alla matvælaframleiðendur.“

Anna María kveðst bjartsýn á framtíð geitaræktunar á Íslandi, ræktunin sé skemmtileg og nú standi til að geitin verði innlimuð í Slow-food samtökin af því stofninn er í útrýmingarhættu.