Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Málshöfðun í Þýskalandi gegn Salman prins

02.03.2021 - 12:10
epa07193215 Saudi Crown Prince Mohammed bin Salman poses for a photo with Tunisian President Beji Caid Essebsi (not pictured) at the Presidential castle of Carthage, Tunis, Tunisia, 27 November 2018. Saudi Crown Prince Mohammed bin Salman, aka MbS, arrived in Tunisia as part of his regional tour before attending the G20 summit in Argentina.  EPA-EFE/STRINGER
Mohammed bin Salman, krónprins í Sádi-Arabíu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Samtökin Fréttamenn án landamæra hafa höfðað mál í Þýskalandi á hendur Mohammed bin Salman, krónprins í Sádi-Arabíu, vegna morðsins á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi og saka krónprinsinn um glæpi gegn mannkyni. Hann hafi einnig staðið á bak við ofsóknir á öðrum blaðamönnum.

Samtökin Fréttamenn án landamæra lögðu fram málsókn sína á hendur krónprinsinum við alríkisdómstól í Karlsruhe í gær með vísan í alþjóðalög sem heimilar yfirvöldum í Þýskalandi að rétta í málum sem fjalla um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni óháð því hvar brot hefur verið framið.

Í síðustu viku birtu yfirvöld í Bandaríkjunum áður leynilega skýrslu um morðið á Khashoggi, sem ráðinn var af dögum í skrifstofu ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl 2018. Í skýrslunni er krónprinsinn talinn hafa lagt blessun sína yfir það.

Ráðamenn í Sádi-Arabíu vísa því á bug, en Fréttamenn án landamæra segjast ráða yfir upplýsingum um skipulagðar aðgerðir stjórnvalda til að ofsækja og þagga niður í blaðamönnum.

Samtökin fara fram á að embætti saksóknara í Þýskalandi rannsaki þau mál, en tiltekin eru gögn sem lögð voru fram með málshöfðuninni um mál þrjátíu og fjögurra blaðamanna sem fangelsaðir hafa verið í Sádi-Arabíu á síðustu árum. Þar á meðal er bloggari, Raif Badawi, sem setið hefur í fangelsi frá 2012 sakaður um að lítilsvirða íslam. 

Christophe Deloire, framkvæmdastjóri Fréttamanna án landamæra, hvetur yfirvöld í Þýskalandi til að taka málið föstum tökum, engin eigi að vera hafinn yfir alþjóðalög.