Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm sendir til baka á landamærunum í morgun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fimm erlendir ferðamenn sem gátu ekki sýnt viðeigandi vottorð við komuna til landsins um helgina voru sendir úr landi í morgun. Tveir til viðbótar verða sendir úr landi á morgun að sögn Sigurgeirs Sigmundssonar, yfirlögregluþjóns flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum. 

Sigurgeir segir alvarleika brota vegna nýrra reglna á landamærunum vera mismunandi. Ferðalangar á leið frá Danmörku koma margir hverjir með svokölluð hraðpróf, Antigen, sem eru tekin gild þar í landi. Þeir sem fara og biðja um gild vottorð á heilsugæslustöðvum í Danmörku fá oft Antigen-skírteini.

Ekkert svigrúm í sektargreiðslum

Sektargreiðslan fyrir brot á reglum við landamærin er 100 þúsund krónur. Ekkert svigrúm er til þess að beita lægri sektum eftir alvarleika brota. Sigurgeir segir samtal við ríkissaksóknara hafið um að þessu verði breytt, og verði meira í ætt við sektargreiðslur fyrir brot á samkomubanni þar sem svigrúmið er talsvert meira. 

Aðeins er vísað þeim úr landi sem ekki eru með dvalarleyfi eða lögheimili hér á landi. Íslendingar, og aðrir sem hafa hér dvalarleyfi, eru beittir sektargreiðslum ef brot þeirra teljast nógu alvarleg samkvæmt ákærusviði lögreglunnar á landamærunum. Innheimta sektanna fer í hefðbundið ferli að sögn Sigurgeirs.

Sigurgeir segir nokkuð tímafrekt að taka á móti farþegum úr hverri flugvél sem lendir á Keflavíkurflugvelli þessa dagana. Um einn til tvo klukkutíma tekur að fara í gegnum öll vottorð og afgreiða úr hverri vél.