Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Erfitt að lesa í stöðuna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þó dregið hafi úr stærri jarðskjálftum á Reykjaneshrygg það sem af er degi er ekki hægt að segja að dregið hafi úr virkninni sjálfri. Þetta segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Við erum ennþá að fá rosalega mikið af skjálftum inn í kerfið hjá okkur,“ segir hún.

Erfitt er að lesa eitthvað í það að dregið hafi úr stóru skjálftunum að sögn Bryndísar. „Þetta hefur verið að koma í hviðum hjá okkur, þannig að við þurfum bara að bíða og vona og sjá hvort þetta sé þá að fara að deyja út eða hvort þetta mun taka sig upp aftur,“ segir Bryndís.

Hún segir sérfræðinga Veðurstofunnar vinna með sömu upplýsingar og í gærkvöld. „Þannig að við erum ennþá með sömu sviðsmyndir. Það eru að kvikuinnskot mögulega minnkar og kvikan storknar undir yfirborði, eða að þetta mun halda eitthvað áfram og mögulega brjóta sér leið upp á yfirborð sem flæðigos með hraunflæði sem mun ekki ógna byggð,“ segir Bryndís.