Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Eigingirni ríkustu ríkja heims hryggir Ghebreyesus

epa09044698 An Ivorian woman receives the first injection of the Covid-19 vaccine, at a vaccination center in Abidjan, Ivory Coast, 01 March 2021. Ivory Coast is one of the first countries to benefit from vaccines funded by the Covax system aimed at providing anti-Covid vaccines to 20 per cent of the population of nearly 200 participating countries and territories this year.  EPA-EFE/LEGNAN KOULA
Fyrstu bólusetningar á vegum COVAX-samstarfsins fóru fram í Gana og á Fílabeinsströndinni á mánudag. Þessi mynd er tekin í Abidjan á Fílabeinsströndinni.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Það er óraunhæft að áætla, að heimsbyggðin verði laus undan oki COVID-19 faraldursins í lok þessa árs, og ríkustu ríki heims sýna allt of mikla eigingirni þegar þau leggja meiri áherslu á að bólusetja ungt og heilbrigt fólk í sínum ranni en að tryggja bólusetningu framlínufólks og eldri borgara í fátækari ríkjum. Þetta kom fram í máli æðstu manna Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í gær.

 

Hægt að draga úr mestu hörmungunum

Michael Ryan, framkvæmdastjóri neyðaraðgerða stofnunarinnar, segir að í ljósi þess að COVID-19 tilfellum fer nú fjölgandi á ný, eftir að hafa fækkað sex vikur í röð, sé ljóst að veiran er ekkert á förum. „Það væri afar ótímabært, og að mínu mati óraunhæft, að halda að við verðum laus við þessa veru í árslok," sagði Ryan á blaðamannafundi í gær.

Með skynsamlegum aðgerðum og sameginlegu átaki telur hann þó mögulegt að fækka mjög alvarlegum veikindum og dauðsföllum og binda þannig enda á mestu hörmungarnar af völdum þessarar skæðu pestar.

Fjölgun nýsmita vonbrigði en ekki óvænt

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri stofnunarinnar, benti á að í liðinni viku hefði nýsmitum fjölgað í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Suðaustur-Asíu og í Austurlöndum nær. Það valdi vonbrigðum, en komi þó ekki á óvart. Að hluta til skýrist þetta af tilslökunum í sóttvarnaaðgerðum, nýjum og smitnæmari afbrigðum veirunnar og minni aðgát almennings.

„Bóluefni munu bjarga mannslífum, en það væru mistök ef ríki heims treystu alfarið á þau. Almennar aðgerðir í sóttvarnar- og lýðheilsumálum verði áfram grunnurinn að öllum viðbrögðum.

Fagnar COVAX-bólusetningum en harmar forgangsröðun ríkra landa

Tedros hefur sagst vilja sjá bólusetningu hefjast í öllum ríkjum heims áður en 100 dagar eru liðnir af þessu ári, sem þýðir að það eru 40 dagar til stefnu. Hann fagnaði í gær fréttum af því að fyrstu bólusetningarnar í COVAX-samstarfinu hefðu farið fram í Gana og á Fílabeinsströndinni og sagði það jákvætt að bólusetning heilbrigðisstarfsfólk í fátækari ríkjum heims væri nú loksins að hefjast.

„En það er hryggilegt að þetta sé að gerast nær þremur mánuðum eftir að sum af ríkustu löndum heims hófu bólusetningu. Og það er hryggilegt að sum ríki haldi áfram að setja láta bólusetningu yngra og heilbrigðara fólks meðal eigin borgara, fólk sem er í lítilli hættu á að veikjast alvarlega, hafa forgang á heilbrigðisstarfsfólk og eldri borgara í fátækari ríkjum.“