Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Bjartsýni um viðskiptaafgang tíunda árið í röð

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Árið 2020 er það níunda í röðinni með samfelldan viðskiptaafgang og mældist hann, samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans vera 30,9 milljarðar króna. Því virðist ekki vera útlit fyrir að Kórónuveirukreppan steypi hagkerfinu í gamalt far viðskiptahalla þrátt fyrir talsverðan samdrátt í útflutningi.

Bjartsýni ríkir á að yfirstandandi ár verði það tíunda í röðinni með samfelldan viðskiptaafgang við útlönd en í sex áratugi á undan var viðskiptahalli viðvarandi í hagkerfinu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Korni greiningar Íslandsbanka. Þar kemur einnig fram að horfur séu á að nái ferðaþjónustan vopnum sínum muni viðskiptaafgangur glæðast að nýju.

Við það gæti krónan styrkst að sögn Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka. Hann segir stöðuna endurspegla gerbreytt ytra jafnvægi hagkerfisins.

„Það er með hreinum ólíkindum að það áfall sem lagði stærstu útflutningsgrein landsins nær alfarið í dvala hafi ekki valdið viðskiptahalla.“

Jón Bjarki segir í samtali við fréttastofu að stöðuna megi þakka því að fólk tók að kaupa vörur, afþreyingu og þjónustu hér heima í stað þess að fara í stórum stíl utan í þeim tilgangi. „Það viðheldur störfum í landinu og skilur eftir virðisauka í landinu.“ 

„Íslendingar eiga líka orðið svo mikið af erlendum eignum sem skila tekjum, þar munar mestu um eignir lífeyrissjóðanna í útlöndum.“

Skellurinn af kórónuveirukreppunni lendi að hluta til á erlendum eigendum ýmissa stórfyrirtækja og það mýki höggið hér innanlands. Jón Bjarki segir það til dæmis eiga við um álframleiðsluna. 

Hann segir að ekki megi gleyma því að mikil kraftur er í  lyfjaiðnaiðinum, hugverkaiðnaði og annarri menningarþjónustu í landinu.

Það er skoðun Jóns að Ísland sé að verða mun sjálfbærara en það var fyrir nokkrum árum eða áratug. Því verði höggið ekki eins þungt þrátt fyrir að útflutningstekjur tapist. 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV