Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Biden: Nóg bóluefni fyrir alla fullorðna fyrir lok maí

02.03.2021 - 22:56
epa09047426 US President Joe Biden makes remarks with Vice President Kamala Harris, on the ongoing COVID-19 pandemic in the State Dining Room of the White House, in Washington, DC, USA, 02 March 2021.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði í dag að Bandaríkjamenn myndu fá það mikið bóluefni fyrir lok maí að það dygði til að bólusetja alla fullorðna landsmenn. Það er tveimur mánuðum fyrr en hann hafði áður sagt, þegar hann sagði að hægt yrði að bólusetja alla fyrir lok júlí. Biden sagði að það væri þó ekki nóg að fá bóluefnaskammtana, það þyrfti einnig að fá fólk til að sjá um bólusetninguna.

Biden greindi frá þessu á blaðamannafundi þar sem hann greindi frá samningi lyfjafyrirtækjanna Merck og Johnson og Johnson's um að fyrrnefnda fyrirtækið taki að sér framleiðslu á bóluefni hins síðarnefnda til að tryggja stóraukið framboð. Biden sagði að samstarf fyrirtækjanna, keppinauta á sínum markaði, væri af sama meiði og samstarf bandarískra stórfyrirtækja í seinni heimsstyrjöld.

Einn skammtur af bóluefni Johnson og Johnson's dugar, ólíkt tveimur skömmtunum sem þarf af flestum öðrum bóluefnum.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, tilkynnti í dag um afléttingar ráðstafana gegn COVID-19. Grímuskylda verður afnumin í ríkinu og fjöldatakmarkanir afnumdar þannig að fyrirtæki geta nú hleypt inn fólki upp að því hámarki sem starfsleyfi þeirra segja til um.