Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Angela Merkel vill slaka lítillega á sóttvörnum

02.03.2021 - 17:40
epaselect epa08793358 German Chancellor Angela Merkel leaves after a press conference after the meeting of the Corona Cabinet in Berlin, Germany, 02 November 2020. Nationwide restrictions, such as the closure of bars and restaurants for one month starting 02 November, have been announced on 28 October due to an increasing number of cases of the pandemic COVID-19 disease caused by the coronavirus SARS-CoV-2.  EPA-EFE/FILIP SINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hyggst leggja til á morgun á fundi með leiðtogum sambandsríkjanna sextán að slakað verði á sóttvarnarreglum frá næsta mánudegi. Kannanir sýna að landsmenn eru orðnir langþreyttir á ströngum takmörkunum vegna COVID-19.

Samkvæmt uppkasti að tillögum kanslarans, sem AFP fréttastofan hefur séð, ætlar hún að leggja til að slakað verði á samkomubanni, þannig að allt að fimm manns úr tveimur fjölskyldum megi hittast frá og með næsta mánudegi. Miðað við núgildandi reglur mega einungis tveir hittast.

Jafnframt telur Merkel tíma kominn til að leyfa að blóma- og bókaverslanir verði opnaðar að nýju. Eigendum hárgreiðslustofa hefur þegar verið heimilað að taka til starfa á ný. Flestar aðrar verslanir verða lokaðar að minnsta kosti til 28. mars, sömuleiðis veitingahús, menningarstofnanir, tómstundaheimili og íþróttahús, svo nokkuð sé nefnt. 

Angela Merkel er undir pólitískum þrýstingi að slaka á ströngum sóttvarnareglum sem hafa verið í gildi vikum saman. Kannanir sýna að Þjóðverjar eru að missa þolinmæðina. Einnig berst fjöldi fyrirtækja í bökkum, þar sem þeim hefur verið haldið lokuðum í von um að þannig megi draga úr veirusmitum. Hátt í fjögur þúsund smit greindust síðasta sólarhring.