Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

279 nígerískar stúlkur lausar úr klóm mannræningja

02.03.2021 - 06:41
epaselect epa09039160 Students, who escaped from gunmen, wait outside the school premises for their parents after gunmen abducted more than 300 students at the Jangebe Government Girls Secondary School, Zamfara State, Nigeria 26 February 2021. According to regional police over 300 girl students were abducted by gunmen in Jangede marking this as the third school attack in Nigeria in less than three months.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
279 skólastúlkur sem rænt var úr heimavistarskóla í Zamfara-ríki í norðanverðri Nígeríu á föstudag eru lausar úr klóm ræningja sinna og komnar öruggt skjól, heilu og höldnu. Dr. Bello Matawalle greindi fréttamanni AFP-fréttastofunnar frá þessu í morgunsárið. „Það gleður mig að geta greint frá því að stúlkurnar eru frjálsar," sagði Matawalle. „Þær voru bara að koma inn í byggingu hins opinbera og eru við góða heilsu."

Upphaflega sögðu stjórnvöld að 317 stúlkum hefði verið rænt úr heimavistarskóla í þorpinu Jangebe á föstudag. Matawalle fullyrti hins vegar í morgun að þær hefðu verið 279 talsins. Árásin á Jangebe-skólann var sú þriðja af þessu tagi á innan við þremur mánuðum.

Betraðir bófar höfðu milligöngu

AFP hefur eftir ónefndum heimildarmanni að yfirvöld hafi leitað liðsinnis bófa sem bætt hafa ráð sitt í aðgerðum sínum til að frelsa stúlkurnar. Hinir betruðu bófar hafi síðan haft milligöngu um lausn stúlknanna.

Þungvopnuð glæpagengi hafa rænt fjölda fólks, þar á meðal hópum skólabarna, í Norðvestur- og Mið-Nígeríu á síðustu árum og krafist lausnargjalds í skiptum fyrir líf og frelsi gísla sinna.

Vígasveitir hryðjuverkasamtaka á borð við Boko Haram hafa líka stundað mannrán á þessum slóðum en ekki alltaf látið fórnarlömb sín laus gegn gjaldi. Þannig hefur enn ekkert spurst til fjölmargra þeirra 276 stúlkna sem Boko Haram rændi í bænum Chibok í Borno-ríki árið 2014. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV