Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Zlatan og Lebron í hart: Eiga íþróttamenn að tjá sig?

Mynd: EPA / EPA

Zlatan og Lebron í hart: Eiga íþróttamenn að tjá sig?

01.03.2021 - 14:00
Sænska knattspyrnuhetjan Zlatan Ibrahimovic skaut föstum skotum á körfuboltamanninn Lebron James í síðustu viku fyrir þáttöku þess síðarnefnda í réttindabaráttu minnihlutahópa í Bandaríkjunum. James svaraði Svíanum fullum hálsi og sagðist aldrei ætla að hætta að berjast fyrir réttindum kúgaðra. Það hefur færst í aukanna síðustu ár að íþróttamenn tjái sig um samfélagsmál, en sitt sýnist hverjum.

Í fréttaþættinum Hádeginu á Rás 1 er rætt við íþróttafréttamanninn Kristjönu Arnarsdóttur um deilur þeirra James og Ibrahimovic, og hvort íþróttamenn eigi að skipta sér af pólitík. 

„Haltu þig við það sem þú ert góður í“

Hinn 39 ára gamli Ibrahimovic, besti knattspyrnumaður Svía og fyrr og síðar og einn besti leikmaðurheims síðustu tvo áratugi, tjáði sig um bandarísku körfuboltastjörnuna Lebron James í nýlegu viðtali á Discovery plús í Svíþjóð.

Zlatan var spurður að því hvað honum fyndist um Lebron James. „Hann er stórkostlegur í í körfubolta,“ segir Zlatan. „En mér líkar ekki þegar fólk í ákveðinni stöðu fer að tjá sig um pólitík. Haltu þig við það sem þú ert góður í,“ sagði Zlatan. 

„Ég spila fótbolta vegna þess að ég er bestur í fótbolta. Ég læt pólitík alveg vera,“ segir Zlatan. „Ef ég væri stjórnmálamaður þá myndi ég tala um pólitík. Þetta eru fyrstu mistökin sem fólk gerir þegar það verður frægt. Láttu þetta vera Lebron, haltu þig við það sem þú ert góður í, þetta lítur ekki vel út.“

Ummæli Zlatans vöktu mikið umtöl, enda segir hann fullum fetum að íþróttamenn eigi ekki að láta sig samfélagsmál varða. Það hefur Lebron James svo sannarlega gert síðustu ár. Og hann er ekki einn um það, síðustu ár hafa íþróttamenn í auknum mæli notað stöðu sína til vekja athygli á mannréttindabrotum kúagðra minnihlutahópa. Undir það tekur Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttamaður. 

„Já ég held að það sé rétt metið,“ segir Kristjana. „Við höfum séð þetta aukast á síðustu árum, til dæmis í kjölfar Black Lives Matter. En það er ekki nýtt af nálinni að íþróttamenn nýti sinn vettvang til að reyna að keyra samfélagslegar breytingar í gegn. Og oft færa þeir miklar fórnir fyrir, Colin Kapernick er kannski besta dæmið um það á síðustu árum.“

NFL-leikmaðurinn Colin Kapernick, sem Kristjana nefnir hér, varð heimsþekktur þegar hann neitaði að standa uppréttur þegar bandaríski þjóðsöngurinn var fluttur fyrir leiki í deildinni, og kraup þess í stað. Þannig vildi hann mótmæla lögregluofbeldi í bandaríkjunum og kynþáttafordómum. Í kjölfarið var Kapernick látinn fara frá liði sínu San Fransisco 49ers og fékk hvergi samning. Hann hefur síðan þá lagt skóna á hilluna, en hann virðist hafa kveikt einhvern neista.

Hlusta má á allan pistilinn og viðtalið við Kristjönu í spilaranum hér á ofan, á síðu þáttarins, eða á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Hádegið er daglegur fréttaskýringaþáttur í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur. Fjallað er um innlend og erlend fréttamál, menningu, íþróttir og daglegt líf. Fréttaskýringar, samtöl og umræður um það sem er efst á baugi.