Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja koma börnum úr flóttamannabúðum á Sýrlandi

01.03.2021 - 02:30
epaselect epa07623500 A Wive of Islamic state fighter (IS) waits with her children upon her deportation from the al-Hol camp for refugees in al-Hasakah governorate in northeastern Syria on 03 June 2019 (issued 04 June 2019).  According to media reports, the Kurdish authorities in northeast Syria are handing over 800 women and children all of them Syrian, including relatives of Islamic state fighters, to their families in the first such transfer from an overcrowded camp.  EPA-EFE/AHMED MARDNLI
Konur og börn í Al-Hol flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Mynd: EPA-EFE - EPA
Barnahjálparsjóður Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, kallar eftir því að börn og ungmenni sem eru í flóttamannabúðum eða fangelsum í norðaustanverðu Sýrlandi verði hleypt heim. Ákallið kemur eftir að fjögur börn fórust í eldsvoða í yfirfullum flóttamannabúðum í Al-Hol í gær. 

Eftir áralanga baráttu við vígamenn hryðjuverksamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki eru þúsundir meintra vígamanna í varðhaldi Kúrda í Sýrlandi, auk tugþúsunda fjölskyldumeðlima þeirra.

Ted Chaiban, svæðisstjóri UNICEF, segir að yfir 22 þúsund börn af minnst 60 þjóðernum hafist við í flóttamannabúðum og fangelsum. Auk þess séu þúsundir sýrlenskra barna þar. Hann kallar eftir því að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma börnum úr þessum aðstæðum og til sinna heima.

Auk fjögurra barna lét kona lífið í Al-Hol búðunum í gær. Eldurinn kviknaði út frá ofni sem sprakk, hefur AFP fréttastofan eftir kúrdískum embættismanni. Alls eru um 62 þúsund manns í búðunum, þar af rúmlega helmingurinn börn undir tólf ára aldri.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV