Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tuttugu skjálftar stærri en 3 frá miðnætti

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Hátt í 20 jarðskjálftar, stærri en 3, urðu á Reykjanes-skaga frá miðnætti til hádegis í dag, 1. mars. Stærsti skjálftinn var 4,9 klukkan hálf tvö í nótt. 

Tíu þúsund skjálftar síðan á miðvikudag 

Yfir tíu þúsund jarðskjálftar hafa mælst á við Keili og Fagradalsfjall á Reykjanes-skaga síðan á miðvikudag. 

Stærsti skjálftinn kom á miðvikudaginn. Hann var 5,7 að stærð. Annar fylgdi strax á eftir. Hann var 5 að stærð. 

Á suðvestur-horninu vöknuðu margir við snarpan skjálfta klukkan hálf tvö í nótt. Hann var 4,9 að stærð. 

Ekki hætta á að hús hrynji

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að öll hús eigi að þola stóra jarðskjálfta. 

„Það á ekki að koma á óvart að það komi svona skjálftar á þessu svæði. Öll hús eru hönnuð fyrir þetta. Við eigum ekki von á að byggingar hrynji eða neitt slíkt,“ segir Víðir. 

Áfram svipaðir skjálftar eða stór skjálfti framundan

Víðir segir að unnið sé eftir tveimur mögulegum sviðsmyndum. Annars vegar að skjálfta-hrinan haldi áfram með svipuðum skjálftum og síðustu daga, jafnvel örlítið stærri. „Þá gætu minni hlutir fallið úr hillum og fólk getur slasað sig á því.“

Hins vegar gæti komið stærri jarðskjálfti. Hann yrði austar en flestir skjálftarnir eru núna. „Þyngri hlutir gætu þá færst úr stað og fallið. Þannig að nú er stóra málið að fara yfir heimili sitt og vinnustaðinn og tryggja að allt sé öruggt,“ segir Víðir.

Hættustig í gildi á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og Árnessýslu

Hættustig Almannavarna tók gildi á miðvikudaginn. Það nær til Suðurnesja, höfuðborgarsvæðisins og Árnessýslu. Fólk á ekki að vera á ferðinni við brattar hlíðar á Suðurnesjum. Þar er hætta á grjóthruni. Sérstaklega er fólk beðið að ganga ekki á Keili. Þar eiga flestir skjálftarnir upptök sín.

Sprungur hafa myndast í vegum á skjálftasvæðinu. Ekkert bendir til að þar undir séu stórar sprungur heldur virðist steypan hafa brotnað í átökunum.