Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Trump skaut á Biden og samflokksmenn í gær

01.03.2021 - 05:52
epa09043657 People watch former US President Donald J. Trump's speech on a TV screen during his closing remarks at the annual Conservative Political Action Conference (CPAC) at the Hyatt Regency Orlando, Orlando, Florida, USA, 28 February 2021. CPAC concluded with a speech from former President Trump, his first public speech since leaving office 20 January 2021.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, heldur því enn fram að hann hafi í raun unnið forsetakosningarnar í nóvember síðastliðnum. Í ræðu sem hann hélt hjá CPAC, samtökum íhaldsmanna í Bandaríkjunum, ýjaði hann að framboði í næstu kosningum.

Trump var aðalræðumaður síðasta kvölds ráðstefnu CPAC í Orlando í Flórída í gær. Andi hans og stefna sveif þó yfir ráðstefnunni allt þar til hann tók til máls. Gullstytta honum til heiðurs var reist við ráðstefnusalinn, og fjöldi ræðumanna hélt þeirri staðlausu fullyrðingu fram að svindlað hafi verið á Trump í kosningunum.

Ekki að stofna nýjan flokk

Trump sagði Repúblikanaflokkinn eiga í vandræðum með að tryggja tilveru Bandaríkjanna eins og Repúblikanar þekkja þjóðina. Baráttan sé mjög erfið, en sú ótrúlega hreyfing sem orðið hefur til í kringum hann og leiddi hann til sigurs fyrir rúmum fjórum árum sé aðeins rétt að byrja. Hann þvertók fyrir að stofna nýjan stjórnmálaflokk. „Við höfum Repúblikanaflokkinn. Hann á eftir að sameinast og verða sterkari en nokkru sinni fyrr," sagði Trump við ráðstefnugesti.

Enn sár við samflokksmenn

Hann virtist ekki tilbúinn að fyrirgefa flokkssystkinum sem greiddu atkvæði með ákæru gegn honum og sakfellingu á Bandaríkjaþingi. Hann nafngreindi alla tíu fulltrúadeildarþingmennina sem samþykktu að ákæra hann og öldungadeildarþingmennina fimm sem vildu sakfella hann fyrir að hvetja til óeirðanna í þinghúsinu í janúar. „Losið ykkur við þau öll," hrópaði hann og uppskar fagnaðarlæti.

Trump nýtti einnig tækifærið til að hnýta í svokallaða útilokunarmenningu, eða „cancel culture", og stefnumál eftirmanns síns Joe Biden. Hann sagði fyrsta mánuð Bidens hafa verið hreina hörmung.

Hyatt biðst afsökunar á haturstáknum

Yfirstjórn Hyatt hótelkeðjunnar sá sig knúna til að fordæma birtingu haturstákna í ráðstefnusal hótelsins í Orlando. Glöggir áhorfendur áttuðu sig á því að sviðið undir ræðumenn ráðstefnunnar var nákvæmlega eins og afbrigði rúnar sem SS sveitir nasista báru á kraga einkennisbúninga sinna.

Í yfirlýsingu Hyatt segja stjórnendur keðjunnar að ábendingarnar um notkun haturstákna sé tekin verulega alvarlega, þar sem öll slík tákn séu viðbjóðsleg og algjörlega andstæð gildum fyrirtækisins. Þá benti hótelkeðjan á að öll hönnun og uppsetning fyrir ráðstefnuna hafi verið í höndum Sambands bandarískra íhaldsmanna, ACU. Matt Schlapp, yfirmaður ACU, sagði allan samanburð við merki nasista algjöralega út í hött.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV