Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telur innanlandssmit líklegast

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Einn greindist með kórónuveiruna í gær og var hann utan sóttkvíar. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir þetta líklega innanlandssmit og yrði það þá fyrsta slíka smitið síðan fyrsta febrúar.

Beðið er eftir niðurstöðu mótefnamælingar en sá sem greindist var nýlega kominn til landsins og reyndist ósmitaður bæði við heimkomu og að lokinni sóttkví. Nokkrum dögum eftir síðari skimun fór viðkomandi aftur í skimun vegna fyrirhugaðrar utanlandsferðar og reyndist þá smitaður. Mögulegt er smitið gamalt og ræðst það síðar í dag þegar niðurstaða mótefnamælingar liggur fyrir.

Veiran er einhvers staðar þarna úti

„Það eru svona líkur til finnst mér að þetta sé innlent smit og það segir það bara að veiran er einhvers staðar þarna úti. Við þurfum bara að fara að rekja og kanna betur hvaðan hún hefur komið,“ segir Þórólfur. Smitið í gær kallar ekki á hertar reglur og sem fyrr sé það hegðun fólks sem skipti mestu máli. „En ef við förum að sjá einhverja meiri útbreiðslu verður náttúrlega að endurskoða það allt saman.“

Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, segir það viðbúið að einstaka smit komi upp. Það sé vissulega sérstakt að viðkomandi hafi greinst eftir að hafa fengið neikvætt út úr tveimur sýnatökum en varast beri að draga of miklar ályktanir fyrr en niðurstaða mótefnamælingar liggur fyrir. „Við höfum talað um það allan tímann að við séum ekki veirufrí og megum búast við því að það greinist einstaklingar utan sóttkvíar.“

Tveir greindust á landamærunum í gær og ekki liggur fyrir hvort smitin voru virk eða gömul.