Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stærsta bólusetningarverkefni sögunnar

01.03.2021 - 17:03
Mynd: EPA / EPA
Framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi segir verkefni Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna að bólusetja íbúa um 90 fátækra landa í heiminum gegn COVID-19 sé tvímælalaust stærsta bólusetningarverkefni sögunnar. Fyrstu bólusetningarnar hófust í dag á Fílabeinsströndinni í Vestur-Afríku.

 „Þetta er hiklaust stærsta bólusetningarherferð sögunnar. Það er áhugavert að þessi bólusetningarherferð er í raun tvöföldun á þeim bólusetningarverkefnum sem UNICEF og samstarfsaðilar þeirra annast á hverju ári. Hún er hins vegar algjörlega eðlisólík hefðbundnum bólusetningaherferðum. Venjulega beinast þær að börnum en hér erum við að ná til fullorðinna og oft handvalinna viðkvæmra hópa. Og það þarf að gera þetta í ákveðinni röð. Þannig að þetta er að mínu viti stærsta og flóknasta bólusetingarherferð sögunnar.“

Segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi. Komið hefur fram í faraldrinum að lönd heimsins standa ekki jöfn þegar kemur að því að kaupa bóluefni og bólusetja sína landsmenn. Vestræn ríki hafa keppst við að tryggja sér nægilega marga skammta og í flestum tilfellum vel rúmlega það. Stefnt hefur í að fátæku löndin verði undir í þessu kapphlaupi. Vegna þessara áhyggna var COVAX komið á laggirnar fyrir atbeina Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og fleiri stofnana. COVAX er samstarf 192 landa um að tryggja  að 190 þjóðir fái bólusetningu gegn kórónuveirunni. Helmingur þessara þjóða eru lág- og millitekjulönd. Birna segir að COVAX snúist um að öll ríki heims sitji við sama borð þegar kemur að innkaupum á bóluefni.

„Og tryggum flutningum á bóluefninu og að koma því til skila til þeirra einstaklinga sem þurfa að fá það.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Birna Þórarinsdóttir

Samið við stærstulyfjafyrirtækin

En hefur Birna trúa á því að hægt verði að tryggja þjóðum heims jafnan aðgang að bóluefni?

„Þegar upp er staðið held ég það. Við höfum auðvitað orðið vitni að ákveðinni örtröð að vera fremst í röðinni síðustu vikur og mánuði. Á sama tíma hafa þeir aðilar sem standa að COVAX-verkefninu verið að vinna að gríðarlega stórum samningum um framleiðslu og innkaup á bóluefni. Það verkefni hefur skuldbundið sig að koma tveimur milljörðum skammta til skila. Það er búið að ljúka samningum við nokkur stærstu lyfjafyrirtæki heims. Meðal annars við stóra verksmiðju á Indlandi sem mun annast stóran hluta af framleiðslu á efninu. Já, þegar upp er staðið verður þessi jafni aðgangur tryggður fyrir tilstilli þessa einstaka samstarfs þar sem mjög stórir aðilar sitja við borðið um samninga um kaup á bóluefninu“ segir Birna. Hún segir að UNICEF muni sjá um að koma efninu til skila á erfiðustu staði heimsins.

Innviðirnir missterkir

Áætlað er að dreifa tveimur milljörðum skammta af bóluefni til þessara 190 landa á þessu ári, og það eru háar upphæðir sem tengjast þessu verkefni. COVAX hefur þegar safnað um 770 milljörðum íslenskra króna til verkefnisins og talið er líklegt að það þurfi um 250 milljarða til viðbótar. Verkefni Unicef er að sjá um bólusetningarnar. Birna segir að staða landanna þar sem stendur til að bólusetja sé mismunandi. Hún bendir á að á hverju ári bólusetji UNICEF um helming allra barna í heiminum.

„En innviðirnir í þessum löndum eru missterkir. Þær áætlanir sem er verið að gera núna taka mið af því að þessar bólusetningar þurfa að ná til  staða þar sem innviðir eru engir. Matið núna er að 70 ríki af þessum 92 séu tilbúin,“ segir Birna.

Ákall um vopnahlé

Verkefnið er flókið og getur orðið erfitt. Birna segir að ákall sé innan alþjóðasamfélagsins um vopnahlé á átakasvæðum til að hægt sé að bólusetja. Hún segir að fjöldi fólks sé án ríkisfangs, í flóttamannabúðum og á vergangi.

„Það er núna visst ákall innan alþjóðasamfélagsins um vopnahlé á vígaslóðum til þess að tryggja þessa herferð. Flækjustigin eru rosalega mörg en verkefnið er alveg skýrt og það er að koma bóluefnunum til skila,“

epa09044689 Raymonde Goudou Coffie, Ivory Coast's Culture Minister receives a vaccination against Covid-19, during a vaccination campaign in Abidjan, Ivory Coast, 01 March 2021. Ivory Coast is one of the first countries to benefit from vaccines funded by the Covax system aimed at providing anti-Covid vaccines to 20 per cent of the population of nearly 200 participating countries and territories this year.  EPA-EFE/LEGNAN KOULA
 Mynd: EPA
Í dag var byrjað að búlusetja á Fílabeinsströndinni

COVAX bólusetningar hófust í dag

Fyrstu bólusetningar á vegum COVAX hófust í dag á Fílabeinsströndinni í Vestur-Afríku. Þar búa tæpar 37 milljónir. Fram að þessu hefur staðan milli ríku og fátæku landanna þó verið talsvert ójöfn þegar kemur að bóluefnum.

„Hún hefur verið mjög ójöfn. Ég get ekki alveg hugsað þá hugsun til enda hver staðan væri ef að við hefðum ekki haft samstarf eins og COVAX til þess að tryggja að öll ríki heimsins fái sína skammta af bóluefni gegn COVID-19. Tilgangurinn með COVAX er að tryggja þetta jafnræði.“

Nánar er rætt við Birnu í Speglinum. Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að ofan.