Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Spurt um hlutverk gervigreindar í samfélagi framtíðar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lýðræðislegar reglur verða að ráða því hvernig gervigreind er notuð og tryggja verður öllum jafnan rétt til að móta þjóðfélag framtíðarinnar. Þetta kemur fram í vinnuskjali nefndar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði í október 2020 um ritun gervigreindarstefnu Íslands.

Nú eru nokkrar spurningar frá nefndinni til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Þær spurningar sem leitað er svara við snúa að því hvaða gildi beri að hafa að leiðarljósi við innleiðingu nýrrar tækni og hvaða hlutverk tækni gervigreindar eigi að leika í samfélaginu.

Eins er horft til þess hvar Ísland ætti að ræða og leysa álitamál sem koma kynnu upp við innleiðingu og notkun nýrrar gervigreindartækni. Jafnframt er velt upp þeirri spurningu hvað þurfi til svo gervigreind nýtist atvinnulífinu að fullu.  

Í samráðsgáttinni segir einnig að tryggja beri öllum jafnan rétt til að móta þjóðfélag framtíðarinnar. Lögð er áhersla á að ljósi verði varpað á hvaða stoðir samfélagsins þurfi að styrkja til að tryggja samfélagslegan og efnahagslegan ábata af þróun, innleiðingu og notkun gervigreindar.

Einföld skilgreining á gervigreind er að hún sé leið mannsins til að fá vélar, í víðum skilningi, til að vinna verk. Gervigreind er þegar orðinn snar þáttur í hversdagslífi fólks, og á vefsíðunni Áttavitanum er hún skilreind sem persónugert algrím, eða algorithmar.

Algrímin nýta sér reynslu og draga af þeim ályktanir. Snorri Agnarsson útskýrði á Vísindavef Háskóla Íslands að algrím væri forskrift eða lýsing sem segði hvernig leysa mætti tiltekið reiknivandamál.

Samfélagsmiðlar eru gott dæmi um gervigreind sem byggir á algrímum. Þeir safna saman upplýsingum um hegðun notandans, vista efni sem honum líkar og senda ábendingar um efni sem reiknað er út að honum kunni að líka.  

„Ef að mannleg greind er skilgreind sem hæfileikinn til að öðlast og nota þekkingu og hæfni þá er gervigreind sá hæfileiki að búa til tölvukerfi sem hefur hæfileika til að öðlast og nota þekkingu og hæfni.“

Þetta eigi sérstaklega við um verkefni sem aðeins maðurinn gat gert áður en til gervigreindar kom. Ríkisstjórnin ákvað í nóvember að ráðast skuli í fræðsluátak fyrir almenning um gervigreind.

Yfirlýstur tilgangur þess er efla fólk til að nýta sér þau tækifæri sem í gervigreind felast á vinnumarkaði og annars staðar. Það tengist svo aðgerðaráætlun um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna.

Stefnumótun nefndar um gervigreind tengist þeirri áætlun meðal annars ásamt Nýsköpunarlandinu Íslandi, áherslum Stafræns Íslands og stefnu Vísinda- og tækniráðs.

Fjölmargir sérfræðingar hafa verið kallaðir til samráðs við nefndina, allt frá lögfræði til siðfræði, máltækni til heilbrigðistækni.