Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Smit innanlands utan sóttkvíar

01.03.2021 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Einn greindist með kórónuveirusmit innanlands í gær og sá var ekki í sóttkví. Enn er þó beðið eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu, og þá kemur í ljós hvort smitið er virkt eða gamalt. Þetta er í fyrsta skipti frá því 1. febrúar sem smit greinist utan sóttkvíar hér á landi. Þar áður greindust tvö smit utan sóttkvíar 20. janúar.

Sá sem greindist í gær kom nýlega til landsins og greindist neikvæður við heimkomu og í skimun að lokinni sóttkví. Í gær, nokkrum dögum eftir seinni landamæraskimun, fór hann aftur í skimun vegna þess að hann var á leið til útlanda og fékk þá jákvæða niðurstöðu.

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir að hugsast megi að smitið sé gamalt og hafi ekki greinst í landamæraskimun en hafi svo greinst síðar. Nú sé beðið eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu. 

Tveir greindust á landamærunum í gær, annað smitanna var virkt og hitt gamalt. 

Fjórir eru í sóttkví hér á landi og 13 í einangrun. Sjö liggja á sjúkrahúsi eftir að hafa smitast af COVID-19.