Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skjálftakvíði vegna aðstæðna sem maður ræður ekki við

Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Níu skjálftar, 3 til 4,2 að stærð, hafa skekið suðvesturhornið síðan í hádeginu í dag, mánudag. Sá stærsti var klukkan rúmlega tvö. Allir fundust þeir vel á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Yfir 80 skjálftar, þrír eða stærri, hafa mælst á svæðinu síðustu tvo sólarhringa og hrinan sem hófst í síðustu viku er enn í gangi. Doktor í áfallasálfræði segir eðlilegt að finna fyrir alls konar tilfinningum í svona ástandi, sérstaklega hjá þeim sem eru í erfiðum aðstæðum fyrir.

Stundum spennandi - stundum hræðilegt

Fólk upplifir misjafnar tilfinningar í kring um skjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Sumum finnst þetta spennandi, jafnvel skemmtilegt, en margir virðast fyllast kvíða, óöryggi og jafnvel hræðslu þegar jörðin skelfur undir fótum þeirra og allt í kring. 

Sigríður Björk Þormar er doktor í áfallasálfræði. Hún segir allan tilfinningaskalann eðlilegan, en ef fólk hefur upplifað stóra jarðskjálfta eða orðið fyrir einhvers konar tjóni í skjálfta, geti svona hrina auðveldlega kveikt gamlar og erfiðar minningar. 

„Fyrir aðra sem eru kannski með almenna kvíðaröskun eða eru viðkvæmir fyrir kvíða einhverju sem þeir hafa litla stjórn yfir, þeir geta fundið fyrir því að kvíðinn aukist og aðallega þessi tilfinning um að hafa enga stjórn. Það er ekkert sem maður getur beint gert annað en að fara eftir almennum leiðbeiningum.” 

Áskorun fyrir þau sem eru í erfiðum aðstæðum

Sigríður undirstrikar að það sé að vissu leyti eðlilegt að finna fyrir kvíða og stressi í svona aðstæðum, en það þýði ekki endilega að ástæða sé til. Þetta eigi sérstaklega við það fólk sem er gjarnt á að detta niður í neikvæðar hugsanir og sjá fyrir sér það skelfilegasta sem gæti gerst. Og svo eru aðstæður fólks ólíkar.  

„Þeir sem eru að ganga í gegn um erfiðleika tengt einhverju öðru. Mögulega einhver erfið veikindi, eða ganga í gegn um erfiðan skilnað eða annað slíkt. Varnirnar eru kannski ekki alveg eins sterkar,” segir hún. „En það skiptir máli að gera greinamun á því hvað er raunverulegt og hvað eru óttatengdar hugsanir. Margir eru til dæmis hræddir við að fara út í umferðina að keyra, en það þýðir ekki að þeir séu að fara að lenda í árekstri.”