Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir samskiptavanda loða við Sjúkratryggingar

helga vala helgadóttir þingmaður samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis
 Mynd: RÚV/Grímur
Formaður velferðarnefndar Alþingis segir samskiptavanda torvelda viðræður milli Sjúkratrygginga og sveitarfélaga um rekstur hjúkrunarheimila. Það sé því miður ekkert einsdæmi þegar Sjúkratryggingar eru annars vegar.

Líkt og fréttastofa greindi frá í gær hafa þrjú sveitarfélög greitt samanlagt yfir tvo milljarða króna með hjúkrunarheimilum á undanförnum árum og ætla þau ekki að endurnýja samninga við Sjúkratryggingar um áframhaldandi rekstur heimilanna. Fulltrúar sveitarfélaga komu fyrir velferðarnefnd Alþingis í síðustu viku og í morgun gerðu fulltrúar Sjúkratrygginga og heilbrigðisráðuneytisins grein fyrir sinni afstöðu.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður nefndarinnar, segist greina mikinn mun á afstöðu þeirra. „Það kom einnig fram að svo virðist sem einhver séu að nota það fjármagn sem ætlað er að nota í hjúkrunarheimili í eitthvað annað óskylt. Ég hef ekki heyrt það áður og ég held að það sé fróðlegt að spyrja sveitarfélögin hvort að þetta sé rétt.“

Skynjar þú samskiptavanda milli Sjúkratrygginga og sveitarfélaga?

„Já, því miður virðist vera samskiptavandi milli flestra þeirra sem eru að reyna að ná samningum við Sjúkratryggingar. Hvort sem um er að ræða talmeinafræðinga, sjúkraþjálfa, rekstraraðila hjúkrunarheimila, sveitarfélögin sem eru að reka hjúkrunarheimilin.“             

Helga Vala segir það liggja fyrir að hjúkrunarheimilin séu vanfjármögnuð af hálfu ríkisins. Fulltrúar Sjúkratrygginga hafi hins vegar bent á löggjafarvaldið og því bendi í raun hver á annan í þessari deilu. Hana þurfi hins vegar að leysa sem fyrst enda miklir fjármunir í húfi fyrir bæði ríki og sveitarfélög. „Við vitum hver staðan er á Landspítalanum varðandi útskriftarvandann þar, þar sem að fólk sem er komið með færni og heilsumat er geymt á hátæknisjúkrahúsi í staðinn fyrir að fá að fara inn á þar til bær hjúkrunarheimili sem eru miklu betri staður.“