Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Óvíst hvenær bóluefni Janssen kemur til landsins

Bóluefni Janssen
 Mynd: AP - Ljósmynd
Óvíst er hvenær kórónuveirubóluefni Janssen kemur hingað til lands. Búist er við að það  fái markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu fljótlega, en framleiðsluáætlun fyrirtækisins hefur ekki gengið eftir, að sögn Rúnu Hauksdóttur Hvannberg forstjóra Lyfjastofnunar.

„Það er verið að tala um að um miðjan mars sé möguleiki á markaðsleyfi í Evrópu og þá hér á Íslandi. Hinsvegar hvenær lyfið kemur hingað til lands veit ég kannski ekki alveg. Það er óvíst,“ segir Rúna.

„Þeir eru ekki alveg klárir í framleiðslu en ég held að þeir séu að tala um að í apríl gæti orðið af afgreiðslu í Evrópu. Það mun skýrast um leið og markaðsleyfið er klárt.“

Ísland hefur tryggt sér skammta fyrir 235 þúsund manns af bóluefni Janssen. Þetta er mesta magn frá einstökum framleiðanda sem Ísland fær, en ekki liggur fyrir hversu mikið kemur í fyrstu sendingu eða hvernig þessi skammtafjöldi mun dreifast.

Að sögn Rúnu stefna lyfjaframleiðendurnir Pfizer, Moderna og Astra Zeneca á auka framleiðslugetu sína sem gæti þýtt að Ísland fái bóluefni fyrr frá þeim en til stóð.  Áætlun um dreifingu bóluefna gildir út mars og ný áætlun hefur ekki verið gefin út. Rúna segir hana í vinnslu, en staðan geti breyst fljótt í takt við breyttar framleiðsluáætlanir lyfjafyrirtækjanna. „Þær eru að breytast mjög hratt og virðist vera til hins betra af því að það er verið að keyra framleiðslu,“ segir Rúna.