Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meira en 50 sprungur á vegum við skjálftasvæðið

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Margar sprungur má sjá á vegum á skjálftasvæðinu. Fólk á meðferðarheimilinu í Krýsuvík finnur vel fyrir skjálftunum. Í Vogum eru flestir íbúar æðrulausir segir bæjarstjórinn þótt mikið gangi á.

Ná ekki undir veginn segir Páll Einarsson

Á Suðurstrandarvegi austan Grindavíkur við afleggjarann að Selatanga hefur Vegagerðin talið 50 sprungur í veginum. Allar eru smáar en búið er að setja keilur við þá stærstu. 

Á Grindavíkurvegi við afleggjarann að Bláa lóninu eru líka sprungur í veginum. Jarðeðlisfræðingarnir Páll Einarsson og Ásta Rut Hjartardóttir töldu þrjár sprungur í dag þegar þau könnuðu aðstæður.

„Við sjáum ekki að þessar sprunguhreyfingar haldi út fyrir vegkantinn. Svoleiðis að þetta er fyrst og fremst virðist vera undirlag vegarins sem er að bregðast við titringnum frá jarðskjálftunum frekar en að hér séu raunverulegar sprunguhreyfingar í gangi,“ segir Páll. 

Þetta er ekki neitt miðað við þjóðveginn á Suðurlandsvegi í Suðurlandsskjálftunum?

„Nei, nei, þetta er ekki skemmd sem neinu nemur. Það þarf ekki að taka tillit til þessara sprungna alla vega ekki enn sem komið er. Það getur verið að það eigi eftir að breytast. Við erum enn í miðri skjálftahrinu svoleiðis að við vitum ekki hvernig það endar allt saman.“

Kassar féllu úr hillum í Krýsuvík

Þeir sem búa næst skjálftasvæðinu búa á meðferðarheimilinu í Krýsuvík. Þar eru nú 18 í meðferð auk starfsfólks. Í skjálftanum í október hrundi grjót úr fjöllunum fyrir ofan. Núna hins vegar finnst heimilisfólkinu þeir snarpari, segir Sigurður Hólmar Karlsson forstm. meðferðarheimilisins í Krýsuvík: 

„Járnabindingin í húsinu og púðarnir sem eru undir því valda því að við verðum mikið vör við þetta og okkur finnst þeir standa lengi yfir. Það hefur helst hrunið úr gluggakistum og kannski svona í geymslum einhverjir kassar sem hafa verið hátt uppi. En það hefur ekkert verið neinn í hættu,“ segir Sigurður Hólmar. 

Þið eruð líka með bílana til taks?

„Já, já, bílarnir snúa þannig að það þarf ekki að bakka þeim til að fara af staðnum. Og við erum með neyðarkassa sem eru tilbúnir til að kippa með.“

Hristist og skelfur í Vogum

Að Grindavíkurbæ frátöldum er næsta þéttbýlið við skjálftasvæðið sveitarfélagið Vogar 

„Það undanfarna daga er allt búið að hristast hér og skjálfa og það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni þegar þessi stóru skjálftar sérstaklega hafa riðið yfir,“ segir Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri sveitarfélagsins Voga.

Hann segir að sumum íbúum sé verulega brugðið en að hann telji þó að meirihluti íbúa taki þessu af æðruleysi. 

„Og treysti bara á það að mannvirki og Almannavarnir standi fyrir sínu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Sprunga á Suðurstrandarvegi.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV