Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hundruð tilnefninga til friðarverðlauna Nóbels

01.03.2021 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: Flickr
Norsku Nóbelsnefndinni hafa borist 329 tilnefningar til friðarverðlauna Nóbels í ár. Þeirra á meðal eru Greta Thunberg, aðgerðasinni í loftslagsmálum, og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. Sömu leiðis Svetlana Tikhanovskaya, forsetaframbjóðandi í Hvíta-Rússlandi og rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny.

Nefndinni ber að halda nöfnum hinna tilnefndu leyndum í hálfa öld, en ýmsir kjósa þó að upplýsa hvern þeir hafi tilnefnt. Nokkrar stofnanir eru meðal tilnefndra í ár, svo sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Gavi, alþjóðleg baráttusamtök fyrir bólusetningum, Fréttamenn án landamæra og Samtökin til verndar fréttamönnum, CPJ.

Nóbelsnefndin tilkynnir 8. október hverjum hlotnast friðarverðlaunin. Handhafi þeirra í fyrra var Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV