Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraun hefði ekki áhrif í byggð þótt af eldgosi yrði

Mynd: RUV / RUV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að myndin af jarðhræringunum á Reykjanesi hafi breyst í dag þegar ný gervihnattagögn bárust. Úrvinnsla á gervihnattagögnum í dag sýnir meiri gliðnun lands en jarðskjálftarnir einir geta skýrt. Því opnast sá möguleiki að þarna sé kvikugangur sem gæti hugsanlega leitt til eldgoss. Það yrði þó á þannig stað að það hefði ekki áhrif í byggð. Kvikugangurinn gæti líka minnkað og storknað án eldgoss.

„Þar sést alveg greinilega að það er umtalsverð færsla sem við getum ekki bara skýrt með jarðskjálftavirkninni,“ segir Kristín um gervihnattamælingarnar. „Þetta er færsla upp á tugi sentímetra. Þetta er 30 sentímetra færsla en skjálftarnir sjálfir eru bara að valda færslum upp á örfáa sentímetra. Einfaldasta skýringin á þessum miklu færslum er sú að það sé opnun á þessari línu sem jarðskjálftavirknin markar, sunnan við Keili, og að þessi opnun sé í rauninni til marks um kvikuinnskot.“

„Við teljum í rauninni mikilvægt að draga fram þessa sviðsmynd núna í ljósi þessara nýju að það er greinilega mjög líklega kvikuinnskotavirkni þarna í gangi,“ segir Kristín. „Þar með eru líkur á því að það verði gos þarna. Það er mikilvægt að meira að segja meðalstórt gosflæði sem yrði þarna, hraun sem kæmi frá því gosi myndi ekki hafa áhrif í byggð. Þetta er sem betur fer staðsett þannig að þetta átakasvæði þarna er á svæði þar sem við erum vel fjarri byggð.“

Áfram verður fylgst gaumgæfilega með svæðinu. Kristín segir að öll gögn og nýjustu tækni hafi verið notuð við það eftirlit. Mælitækjum verður fjölgað og rýnt áfram í gervihnattagögn. Einnig verða teknar drónamyndir og haldið áfram með gasmælingar. „Við höfum ekki verið að mæla gas ákkurat þarna. Gasmælingarnar eru alltaf gerðar á sömu stöðum svo að við getum skoðað breytingar sem taka tíma,“ segir Kristín. „Þetta verður endurskoðað núna í ljósi þessa. Hugsanlega verður farið á þetta svæði og gerðar mælingar við Fagradalsfjall.“