Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gos yrði hvorki stórt né hættulegt

Gos nærri Keili, ef af því yrði, mundi hvorki verða stórt né fara hratt yfir, það myndi fyrst og fremst einkennast af hraunframleiðslu en sprengivirknin væri frekar væg. Þetta sögðu þeir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í Kastljósi í kvöld. Nýjar mælingar í dag sýndu að möguleiki á eldgosi er ein þeirra sviðsmynda sem verður að hafa til hliðsjónar, auk sviðsmynda um annað hvort öflugri skjálfta eða að skjálftahrinan deyi út á næstu dögum.

Bæði Þorvaldur og Magnús Tumi lögðu áherslu á að þótt svo kvikusöfnun eða eldgos væru meðal þeirra möguleika sem yrði að halda opnum væri alls ekki þar með sagt að af eldgosi yrði. Þeir hlógu aðspurður hvort þeir teldu líklegra að ferlinu lyki með eldgosi eða ekki. Magnús Tumi sagði að á endanum myndi gjósa en það gæti gerst eftir eitt til tvö hundruð ár.

Gos í norðanverðu Fagradalsfjalli, sunnan við Keili, myndi ekki leiða til mjög mikils öskufalls, sagði Þorvaldur. Hann sagði að ef til vill yrði eitthvert öskufall sem gæti valdið óþægindum auk þess sem gasútstreymi yrði án efa eitthvað.

Ekki er víst að það fari mikið fyrir upphafi eldgoss ef til þess kæmi, þar sem sprengivirknin er lítil. Óvíst er hve lengi eldgos gæti varað.

„Þetta getur kannski varað í vikur, jafnvel mánuði í verstu tilfellum. Jafnvel ef virknin fer út í sjó þá eykst ekkert sprengiaflið í gosinu,“ sagði Þorvaldur. Þá myndi aðeins myndast aska sem dreifðist aðeins víðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan

Fólk ekki í hættu

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur er einn þeirra sem hafa rannsakað hvar hraun kynni að renna ef eldgos hæfist á Reykjanesskaganum. Hann tók fram að rannsóknin segi ekkert til um hvort að það verði eldgos, aðeins hvaða leið hraunið kynni að renna ef til goss kæmi.

„Það sem kynni að vera í hættu er fyrst og fremst Reykjanesbrautin,“ segir hann um þá rannsókn á margvíslegum mögulegum gosum.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði að hraunið myndi ekki fara hratt yfir ef af eldgosi yrði. Hann sagði að slíkt gos yrði ekki lífshættulegt. „Fólk getur alltaf forðað sér.“

Hraun flæða venjulega í rásum og geta þá farið hratt en þegar þau fara út fyrir rásirnar ná þau ekki meira en gönguhraða, sagði Þorvaldur.

Magnús sagði að fyrri gos væru besta vísbendingin um hvað gæti gerst ef það yrði gos. „Þau eru lítil og meðalstór.“

Meðalstærð hrauns sem hefur komið upp á yfirborðið í eldgosum á Reykjanesskaga er um tíu ferkílómetrar, fimm kílómetrar á lengd og tveir á breidd, sagði Þorvaldur. Lengsta hraunið sem hefur myndast í sprunguhrauni á Reykjanesskaga er sautján kílómetrar.