Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fjölga mælum við Keili

01.03.2021 - 17:15
Mynd með færslu
Hringurinn lengst til hægri sýnir skjálftann upp á 5,1 klukkan 16:35. Mynd: Veðurstofan
Jarðskjálftinn sem reið yfir þegar klukkuna vantaði 25 mínútur í fimm í dag var 5,1. Það er fjórði skjálftinn í dag yfir fjórum. Stóru skjálftarnir hafa verið á svipuðum slóðum í kringum Keili. Veðurstofan hyggst koma fyrir fleiri mælum til að fá betri sýn á hversu djúpir skálftarnir eru.

„Þeir hafa verið þarna umhverfis Keili, allir á svipuðum slóðum,“ sagði Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, um jarðskjálftana í útvarpsfréttum RÚV klukkan fimm. „Það er ekki hægt að greina þetta meira í bili. Dýpið er svipað en við ætlum að bæta við mælum til að fá betri ákvörðun á dýpið.“

Skjálftinn í dag er sá þriðji stærsti frá upphafi jarðskjálftahrinanna í síðustu viku. Hún hófst með skjálfta upp á 5,7 og sama dag varð annar 5,0 að stærð. Á laugardag varð næst stærsti skjálftinn, 5,2 að stærð. Í nótt varð skálfti 4,9 að stærð.