„Ég myndi algjörlega segja að hann sé mikilvægur partur af Gagnamagninu,“ segir Daði Freyr Pétursson um Ásmund Lárusson, bónda á Norðurgarði á Skeiðum sem er pabbi Árnýjar Fjólu í Gagnamagninu. „Þetta er ekki bara við sex þó að við séum að gera mest.“
Ásmundur aðstoðar sveitina nefnilega við að smíða hljóðfærin og búningana. „Ég hef reynt að segja að þetta sé of flókið,“ segir hann en það hafi hins vegar lítil áhrif. „Þá yfirleitt klórum við okkur út úr því, einhvern veginn.“
Skyggnst var inn í skúr hjá Ásmundi í nýjum heimildarþætti um Daða og Gagnamagnið á RÚV.
Ásmundur segist nýta það sem er hendi næst við gerð hljóðfæranna og búninganna, eins og bjórkassa, umbúðir utan af kaffi og plastmottur. „Þetta er fengið héðan og þaðan úr ruslinu eða því sem næst, sko. Gamalt parket og hátalari og svona.“