Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dómsmálaráðherra skráði ekki símtöl við lögreglustjóra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra skráði ekki samskipti sín við Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á aðfangadag. Þetta staðfesti ráðherra í svari við fyrirspurn fréttastofu.

Fréttastofa greindi frá því fyrir helgi að ráðherra hefði hringt tvívegis í lögreglustjórann eftir að fjölmiðlar greindu frá því á aðfangadagsmorgun að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði verið viðstaddur samkomu í Ásmundarsal þar sem grunur lék á að sóttvarnareglur hefðu verið brotnar. Í dagbókarfærslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem var send til fjölmiðla snemma á aðfangadagsmorgun, sagði að „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“ hefði verið í samkvæminu.

Áslaug Arna sagði í viðtali við fréttastofu að hún hefði haft samband við lögreglustjórann til að spyrja um verklagsreglur um dagbókarfærslur lögreglunnar og persónuverndarsjónarmið: „Mér þykir mikilvægt að vera vel upplýst og í góðu sambandi við lögreglustjóra til að geta svarað fyrirspurnum frá almenningi og fjölmiðlum,“ sagði hún.

Þarf að skrá óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg

Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands þarf að færa skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess. Í reglugerð frá árinu 2016 um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands segir að óformleg samskipti þurfi að skrá ef þar koma fram mikilvægar upplýsingar um málefni sem heyra undir ráðuneyti. „Með óformlegum samskiptum er átt við munnleg samskipti, þar á meðal símtöl og fundi, þar sem lýst er afstöðu eða veittar upplýsingar sem teljast hafa þýðingu fyrir mál sem er til meðferðar í ráðuneyti eða teljast mikilvægar vegna málefna sem heyra undir ráðuneytið, enda komi afstaðan eða upplýsingarnar ekki fram í öðrum skráðum gögnum. Skrá skal hvenær samskipti fóru fram, milli hverra og efni upplýsinga sem um ræðir,“ segir í reglugerðinni. 

Reglurnar komu til umræðu árið 2017 þegar greint var frá því að Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði ekki skráð samskipti sín við Bjarna Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, þegar hún upplýsti hann um að faðir hans væri einn af meðmælendum kynferðisbrotamanns sem fékk uppreist æru. Þá sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis dómsmálaráðuneytinu fyrirspurn um það hvort samskiptin hefðu verið skráð og fékk þau svör að símtalið hefði ekki verið skráð.

Sams konar reglugerð kom við sögu þegar umboðsmaður Alþingis rannsakaði samskipti fyrrverandi innanríkisráðherra við lögreglustjóra vegna lekamálsins. Í áliti umboðsmanns alþingis frá árinu 2014 beindi hann því til forsætisráðherra að kanna þyrfti betur almenna framkvæmd þessara reglna og eftir atvikum hvort mætti gera þær skýrari um það til hvaða tilvika skráningarskyldan tæki.