Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Án íslensku raddanna yrði sjónskerðingin að fötlun

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Ef íslenskar raddir detta úr snjallsímum verður sjónskerðingin að raunverulegri fötlun, segir kona sem nýtir sér raddirnar í starfi, fundarhöld og fleira. Með nýjustu hugbúnaðaruppfærslu verða raddirnar ekki lengur aðgengilegar og blindir og sjónskertir geta þurft að bíða í allt að tvö ár eftir að nýr íslenskur talgervill verður tilbúinn. Menntamálaráðherra segir að unnið sé að lausn. 

Blindir sem reiða sig á talgervla í snjallsímum hafa miklar áhyggjur af því að íslensku raddirnar Karl og Dóra verða brátt ekki lengur aðgengilegar í Android-símum. Unnið er að gerð nýs talgervils en hann verður ekki tilbúinn fyrr en eftir eitt til tvö ár. Blindir og sjónskertir hafa nýtt íslensku raddirnar með því að merkja texta í vafra, tölvupósti eða skjali og þá les talgervilinn textann upphátt fyrir notandann. 

Rósa María Hjörvar nýtir sér íslensku raddirnar í snjallsímanum.

„Það er einfaldlega þannig að hann les fyrir mig það sem stendur á skjánum án þess að ég þurfi að vita hvar það er. Svo að ég get leitað á skjánum með því að fletta með fingrinum hvar sem er á skjánum og þegar ég heyri það sem mig vantar þá tvísmelli ég. Svo þannig get ég ferðast um algjörlega án þess að sjá á skjáinn,“ segir Rósa María. Þannig lætur talgervillinn hana vita á hverju fingurinn hvílur og þannig getur hún til að mynda losnað við að opna ruslpóst í tölvupóstsforritinu.

Hvernig væri það ef þú ekki þessar raddir?

„Það myndi bara vera mjög mikil skerðing. Þá held ég að við værum að tala um að þessi sjónskerðing væri orðin raunveruleg fötlun. Ég nota þetta tæki bara í allt. Ég er í fullu starfi, sinni kennslu. Ég les bækur, tek fundi, messenger, með tónlistarhópinn hjá börnunum og allt þetta sem maður gerir í símanum. Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég hefði ekki aðgang að honum. Þá þyrfti ég örugglega bara aðstoðarmann,“ segir Rósa María.

Með nýjustu uppfærslum í snjalltækjum detta raddirnar út. Blindrafélagið hafði frumkvæði að því að raddirnar væru búnar til. Amazon keypti það fyrirtæki en hefur ekki sinnt viðhaldi á íslensku röddunum og því detta þær út.

„Við höfum verið að fjárfesta heilmikið í máltækni og erum að skoða þetta mál. Ég vonast til þess að við finnum farsæla lausn á því. Við höfum áður verið að koma með athugasemdir. Ég nefni til að mynda Disney. Þeir brugðust mjög hratt og örugglega við. Ég mun hafa sömu viðbrögð við þessu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. 

Samkvæmt verkáætlun í máltækni fyrir íslensku á nýr íslenskur talgervill að vera tilbúinn í lok næsta árs. Blindir óttast að vera án talgervils fram að því. Ráðherra telur að ekki þurfi að koma til þess.

„Ég tel það. Það er mjög mikið að gerast og ég er mjög bjartsýn,“ segir Lilja.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV