Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

81 árs og eldri bólusettir í vikunni

01.03.2021 - 09:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins gerir ráð fyrir að bólusetja 5.400 manns í vikunni. Á þriðjudag og miðvikudag hafa verið boðaðir í bólusetningu allir íbúar fæddir 1939 og fyrr sem ekki hafa enn verið bólusettir, og á föstudag verður haldið áfram að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk.

Heilsugæslan hefur 3.400 skammta af bóluefni bandaríska lyfjarisans Pfizers til þess að bólusetja fólk fætt árið 1939 og fyrr í Laugardalshöll á þriðjudag og miðvikudag klukkan 09-15. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við fréttastofu að þeir sem ekki hafi fengið SMS með boði í bólusetningu geti mætt hvenær sem er milli 9 og 15.

Þá hefur heilsugæslan einnig 2.000 skammta af bóluefni bresk-sænska lyfjafyrirtækisins AstraZeneca til þess að halda áfram að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk á föstudag.  „Þá verðum við komin ansi langt með þann hóp,“ segir Ragnheiður Ósk. 

19.593 hafa nú þegar verið bólusettir á Íslandi og 12.564 þeirra hafa fengið báðar sprautur og eru því fullbólusettir, langflestir með bóluefni Pfizers.