Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

15 hafa tilkynnt tjón af völdum skjálftahrinunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur fengið 15 tilkynningar um tjón af völdum jarðskjálftahrinunnar sem hófst á miðvikudaginn. „Hús á Íslandi eru sterkbyggð og þau þola almennt stærri skjálfta en þá sem hafa riðið yfir síðustu daga,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, í samtali við fréttastofu. 

Tryggingafélögin taka ekki ábyrgð á tjóni af völdum náttúruhamfara, Náttúruhamfaratrygging Íslands er opinber stofnun sem vátryggir helstu verðmæti gegn náttúruhamförum. Eiginábyrgðin er mikil; 200 þúsund krónur vegna tjóns á innbúi og lausafé, eins og heimilismunum, lagerum og lausafé á skrifstofu, og 400 þúsund króna eigináhætta vegna tjóns á húseignum.

Hulda minnir á að minniháttar tjón af völdum náttúruhamfara sé ekki tryggt: „Best er ef fólk býr þannig um hluti að þeir séu öruggir, því það getur ekki reiknað með að minniháttar tjón sé bætt.“

Til þess að innbú sé tryggt gegn náttúruhamförum þarf það að vera brunatryggt og brunatrygging er oftast innifalin í innbús- og heimilistryggingu hjá tryggingafélögum.