„Virknin er áframhaldandi, við erum í miðjum atburði. Við höfum séð virknina í dag vera aðallega nyrst í Fagradalsfjalli og ná að Keili. Í nótt mældust skjálftar við Trölladyngju sem fundust vel í Hafnarfirði og svo um hádegisbil var virkni rétt fyrir norðan Grindavík þannig að hún hefur aðeins verið að færast til,“ segir Kristín.
Nokkuð snarpur skjálfti varð klukkan 19:01. Verið er að fara yfir mælingar á Veðurstofunni en samkvæmt bráðabirgðatölum var hann 4,7 að stærð. Skjálftinn varð um 1,5 kílómetra suðvestur af Keili. Kristín segir erfitt að spá fyrir um framhaldið. „Ég held að við séum bara í miðri akkúrat núna eins og við fundum bara rétt áðan, vonandi gengur þetta bara niður á næstu dögum en við verðum bara að fylgjast með og sjá til hvernig þessu vindur fram.“