Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rýmingaráætlun er til fyrir höfuðborgarsvæðið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Það er til rýmingaráætlun fyrir höfuðborgina. Það er mikilvægt því þá er vitað hvað ber að gera ef eitthvað kemur fyrir,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hún var gestur í Silfrinu í morgun.

„Það er aðgerðastjórn sem tekur ákvörðun um hvað á að gera. Það er  lögreglustjóri í hverju umdæmi sem er aðgerðastjóri og tekur ákvörðun um ef þarf að rýma eitthvað.“

Halla rifjar upp að ríkislögreglustjóri fer með almannavarnirnar og í hverju sveitarfélagi eru aðgerðastjórnir sem eru að undirbúa viðbrögð við því sem getur getur gerst.

Það sé hluti af undirbúningnum að sjá fyrir sér þær sviðsmyndir sem Veðurstofan og okkar færustu sérfræðingar útvegi.

Halla Bergþóra segir rýmingaráætlun ekki ganga út á að rýma allt höfuðborgarsvæðið. Það sé ógerlegt. Slík áætlun eigi við ef rýma þurfi ákveðin svæði. Halla minnir á að mikilvægt sé fyrir fólk að hafa farsíma sína vel hlaðna þegar hættutímar eru uppi.

Gert sé ráð fyrir að senda skilaboð með sms eða gegnum fjölmiðla. „En ef eitthvað gefur sig í farsímakerfinu eru allir viðbragðsaðilar með gjallarhorn og keyrt verður á og kallað út.“

Í svona aðstæðum segir Halla að þurfi að huga að náunganum, að allir þurfi að vera almannavarnir gagnvart öðru fólki. Til að mynda þurfi að huga að eldra fólki sem heyrir ekki vel eða fólki sem skilur ekki íslensku. „Við þurfum að halda ró okkar og passa að við verðum ekki fyrir slysum.“  

Aðgerðastjórnir sjái um að kalla til viðbragðsaðila. Í aðgerðarstjórn eiga til dæmis Landsbjörg og Slökkvilið sæti og viðbragðsaðilar eru viðbúnir þegar þeir kemur að því að þeir eru kallaðir út.

„Við vitum þá eins og hægt er að vita hvernig á að bregðast við, svona eins og hægt er þegar verið að tala um náttúruna.“

Nú sé talað um stóran skjálfta mögulega, en enginn tali um að hús hrynji, því byggingarstaðlar hér komi í veg fyrir það. Þó gætu hús skemmst og gæta þurfi vel að lausum innanstokksmunum.

Undanfarið ár hefur reynt mikið á almannavarnarkerfið, byrjaði með óveðrinu í janúar 2020, COVID og fleiru. Höllu finnst kerfið hafa komið vel út, búið sé að miklum mannauð í kerfinu, og að áætlanir séu æfðar til að takast á við atburði.