Óskar eftir vísbendingum um meintan banamann Friðriks

Mynd: RÚV / RÚV

Óskar eftir vísbendingum um meintan banamann Friðriks

28.02.2021 - 15:00

Höfundar

„Við setjum upp hliðarheim þar sem hliðarsjálf mitt kemst að því að eitthvað hafi komið fyrir Friðrik Dór. Ég reyni að komast að því hver hafi myrt hann,“ segir leikarinn og grínistinn Vilhelm Neto sem leikur í nýjum þáttum í sjónvarpi Símans þar sem hann rannsakar meint morð á söngvaranum, sem auðvitað er sprelllifandi og leikur sjálfur í þáttunum.

Leikarinn og grínistinn Vilhelm Neto var fjórtán ára þegar hann flutti til Íslands frá Portúgal og kláraði grunnskóla í Austurbæjarskóla. Síðar lærði hann leiklist eða svokallað method acting í alþjóðlega leiklistar- og sviðslistaskólanum CISPA í Kaupmannahöfn. „Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa farið í þann skóla. Ég kenndi mér þar að vera með aga í vinnu og starfi,“ segir hann í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2.

Vilhelm hefur slegið í gegn sem uppistandari og mörgum er í fersku minni atriðið í Áramótaskaupinu þar sem Vilhelm leikur mann sem vill alls ekki bera grímu en heldur niðri í sér andanum þegar hann mætir fólki. Mörgum fannst það vera besta atriði Skaupsins.

Nýverið tók hann að sér stærsta hlutverk sitt til þessa því hann leikur aðalhlutverkið í þáttunum Hver drap Friðrik Dór? Villi leikur sjálfan sig að rannsaka meint morð á poppstjörnunni Friðriki Dór sem finnst í þáttunum látinn í Kaplakrika eftir tónleika. „Þetta eru grínheimildarþættir, sem á góðri ensku er kallað mocumentary,“ útskýrir Vilhelm. „Við setjum upp hliðarheim þar sem hliðarsjálf mitt kemst að því að eitthvað hafi komið fyrir Friðrik Dór. Ég reyni að komast að því hver hafi myrt hann.“

Hann segir málið hið dularfyllsta og lýsir þáttunum sem nokkuð rugluðum. „Það er búið að vera ógeðslega gaman að fá að gera þetta, að fá að vinna með svona frábæru fólki. Guðrún Gísla leikur mömmu mína. Ég hélt aldrei að það myndi gerast en það er alveg geggjað,“ segir Vilhelm. Ferlið hefur verið nokkuð langt en tökur stóðu yfir í eitt og hálft ár og teygja sig alla leið til Færeyja.

Grínheimildarþættir sem þessir segir hann vera nýlundu í íslensku sjónvarpi og að í þáttunum sé sett fram stórt og flókið samsæri. „Það er gaman að setja fram hliðarheim á Íslandi og kafa dýpra ofan í það,“ segir hann. „Ég er að fara með áhorfandann í mikið ferðalag.“

Í kynningarherferð fyrir þættina hefur verið sett upp skilti á umferðareyju í borginni þar sem spurt er Hver drap Friðrik Dór? Einnig hefur verið sett um heimasíða þar sem óskað er eftir upplýsingum um málið. „Ég setti þetta skilti upp. Við vildum gefa fólki smá smugu inn í þennan heim sem við vorum að skapa,“ segir Vilhelm. „Fólk er bara: Hvaða rugl er þetta?“

Sjálfur tók Friðrik Dór vel í hugmyndina um að sviðsetja morðið á sjálfum sér og leikur í þáttunum ásamt meðal annars bróður sínum. „Hann er lúmskur grallari og góður leikari. Hann og Jón Jónsson koma fram í þættinum og standa sig ansi vel.“

Rætt var við Vilhelm Neto í Morgunútvarpinu á Rás 2.